Skírnir - 01.09.1992, Page 40
302
HELGIÞORLÁKSSON
SKÍRNIR
Þórarinn herti upp hugann og tók að vega menn. Okkur er ætlað
að skilja að Snorri spjalli kinnroðalaust við ástkonu sína um eigið
ágæti, karlmennsku, hugdirfð og víg vegin með sverði.
Höfundur Eyrbyggju leiðir alveg hjá sér þessa andstæðu milli
Þórarins og Snorra; kemur hvergi fram í meginmáli sögunnar að
Snorri hafi barist með vopnum, hann stóð jafnan hjá en aðrir
unnu hreystiverkin. Jafnvel er dæmi um að þurft hafi að verja
hann. Þannig er honum lýst sem fullkominni andstæðu keppi-
nautar síns, hins hrausta hermanns, Arnkels goða, og hann stenst
engan veginn samjöfnuð við hetjuna Sturlu Þjóðreksson. Þeir
Snorri fóru að Óspaki í Bitru, Sturla vann þá hin mestu hreysti-
verk samkvæmt Eyrbyggju en Snorri lét Þránd stíganda vinna
verkin fyrir sig. Eins var það þegar Snorri og menn hans fóru
fimmtán saman að Arnkeli goða þar sem hann var einn og felldu
hann, að þá er þess ekki getið í sögunni að Snorri hafi unnið á
honum. Yísur Þormóðar verða hins vegar ekki skildar öðru vísi
en að Snorri hafi fellt þrjá menn Óspaks og skýrt kemur fram í
annarri vísu Þormóðar að Snorri hafi sjálfur unnið á Arnkeli.20
Hér er því ósamræmi milli vísna og sögu. Skýringin gæti verið að
höfundur Eyrbyggju kjósi að gera Snorra goða líkan Snorra
Sturlusyni að þessu leyti, eins og komið skal að. Spyrja má af
hverju höfundur felur ekki ósamræmi milli meginmáls og vísna;
svarið gæti verið að hann hafi ætlað glöggum lesendum að taka
sérstaklega eftir hvernig hann breytir mynd Snorra goða.
I stuttri samantekt um vinnubrögð höfundar Eyrbyggju við
lýsingu hans á Snorra goða má segja að einna athyglisverðast sé
að Snorra er lýst sem vígamanni í kvæðum sögunnar og vísum en
í meginmáli er lögð áhersla á að hann hafi verið enginn hermaður.
Þannig fer höfundur beinlínis gegn heimildum sínum um þetta og
hafnar þeim í frásögn sinni. Þetta bendir til að hann hafi lagað
efnið í hendi sér og kemur heim við það að lýsingar á héraðsríki
Snorra á Snæfellsnesi séu ýktar og að mestu tilbúningur höfund-
ar. Til hins sama bendir sú vitneskja sem höfundur þykist hafa, að
Snorri hafi hvorki verið hávaxinn né þrekinn og skal nú komið að
því.
20 ÍF IV, bls. 168,102.