Skírnir - 01.09.1992, Síða 42
304
HELGI ÞORLÁKSSON
SKÍRNIR
efaðist um, voru síðan sett niður aftur og var óvíst um leg þeirra
þegar Auðunn biskup lét leita þeirra árið 1315.23
Vafalaust var líka erfitt að finna gröf Jóns biskups Ögmunds-
sonar um 1199 þegar bein hans skyldu tekin upp og menn hafa
haft efasemdir um þau. Guðmundur Arason var þá einn helsti
„hugmyndafræðingur“ um helga dóma og upptöku beina og lét
menn kyssa bein heilagra manna, þau sem hann hafði meðferðis,
ma. bein Jóns biskups. Segir frá presti einum sem efaðist um að
rétt væri sagt frá um bein Jóns.24 Og Þorsteinn Þraslaugarson
vissi ekki nema einhver bein sem Guðmundur fór með væru
hrossabein.25 Er sýnt að ætluð bein heilagra manna og upptaka
beina hafa vakið ýmsar efasemdir.26
Fimm sagnir í Islendingasögum um upptöku beina annarra en
þremenninganna í Eyrbyggju eru um margt grunsamlegar, sam-
anber um Egil Skallagrímsson, bein hans eru sögð hafa verið
„miklu stærri en annarra manna bein“ og um bein Grettis Ás-
mundssonar segir að þau væru „geysistór og þó mikil", samanber
ennfremur bein Barkar sem eiga að hafa verið „ákaflega mikil“.27
Hérna eru væntanlega tengsl enda eru allar sögurnar orðaðar við
Sturlunga og í Grettlu beinlínis vísað til þeirra varðandi beinin.28
23 Laurentius saga biskups. Útg. Árni Björnsson (Reykjavík 1969), bls. 67-8.
24 Biskupa sögur I, bls. 251.
25 Sturlunga saga I-II. Útg. Jón Jóhannesson, Kristján Eldjárn og Magnús Finn-
bogason (Reykjavík 1946), bls. 141.
26 Er nærtækt að minnast þess hversu mikil óvissa hefur verið um jarðneskar
leifar Jónasar Hallgrímssonar og fór þó sjálfur þjóðminjavörður að leita þeirra
og gat stuðst við tilvísun Konráðs Gíslasonar og gögn um Hjástoðarkirkju-
garð í Kaupmannahöfn.
27 Sbr. Jón Steffensen, „Ákvæði kristinna laga þáttar um beinafærslu". Menning
og meinsemdir (Reykjavík 1975), bls. 155-6.
28 Grettis saga Ásmundarsonar. Útg. Guðni Jónsson. {íslenzk fomrit VII, Reykja-
vík 1936), bls. 269. Sagt er að beinin hafi verið grafin upp „um daga Sturl-
unga“, samanber einnig að Sturla Þórðarson er heimildarmaður í sögunni um
Gretti, bls. 289. Jesse Byock hefur ritað rækilega um lýsingu Eglu á höfuð-
beinum Egils og fært rök fyrir að frásögn sögunnar sé rétt, að í rauninni hafi
beinin verið Egils. Meginrökin eru þau að beinin hafi verið óeðlilega stór
vegna sjúkdóms Egils og sagan sýni að Egill hafi verið haldinn sjúkdómnum
án þess höfundur hafi gert sér grein fyrir því. Sbr. „The skull and bones in Eg-
ils saga: A viking, a grave, and Paget's disease“ (hdr.).