Skírnir - 01.09.1992, Side 45
SKÍRNIR
SNORRI GOÐI OG SNORRI STURLUSON
307
Samkvæmt íslendingasögum skipti miklu máli á hetjuöld að
karlar sýndu ekki nein merki um að þeir væru blauðir og einna
verst voru merki um ótta í hernaði. Vopnfælni þeirra nafna vekur
því spurningar: Var Snorri Sturluson linur við vopnaburð vegna
lítilla líkamsburða eða var hann of kjarklítill til að ganga rösklega
fram í bardögum?
Athugum fyrst hvaða líkur eru til að Snorri goði hafi verið
kjarklítill. Þorleifur kimbi er látinn bera honum á brýn að hann
sé huglaus.36 En Sigfús Blöndal hefur haldið hinu gagnstæða
fram, að hann hafi verið kjarkmaður.37 Var hann bæði huglaus og
kjarkmaður? Vésteinn Ólason telur að Snorri hafi ekki verið hug-
laus, en bendir á að hann láti hins vegar undan af hyggindum og
bíði síns tíma en spari sig ekki þegar hann telji rétta tímann kom-
inn.38 Þetta held ég að hljóti að vera réttur skilningur og það er
einboðið að rugla ekki saman kjarkleysi og þeirri slægð sem var
fólgin í að láta undan en sækja síðan fram aftur, etv. óvænt. Snorri
goði er eins og Geitir í Vopnfirðingasögu sem bíður síns tíma og
stendur að lokum yfir höfuðsvörðum hraustmennisins mikla,
Brodd-Helga.39 Þannig er Snorri goði, seinn til aðgerða, menn
hans átelja hann fyrir skort á skörungsskap og hann hættir stund-
um við að láta til skarar skríða.40 En að lokum stendur hann uppi
sem sigurvegari. Hann var viðstaddur átök en þurfti ekki endilega
að vera í fremstu víglínu sjálfur til að hafa sigur.
Því hefur líka verið haldið fram um Snorra Sturluson að hann
hafi verið hugdeigur. Ég held að slíkar fullyrðingar byggist á því
einkum að mönnum finnist sem Snorra hafi stundum skort skör-
ungsskap og að hann komi sér ósjaldan hjá að takast á við mál
36 ÍFIV.bls. 113.
37 Sigfús Blöndal, tilv. rit, bls. 77.
38 Vésteinn Ólason, tilv. rit, bls. 20-21.
39 Jesse Byock hefur borið saman andstæðingana Brodd-Helga og Geiti annars
vegar og Snorra og Arnkel hins vegar, sbr. Medieval Iceland. Society, Sagas
and Power (University of California Press 1988), bls. 204-5, 218. Kænska og
það sem mundi verða kallað gott tímaskyn í nútímastjórnmálum einkenna þá
Snorra og Geiti en lengra nær samlíkingin ekki, Geitir er varla altekinn af
ástríðu valdsins og stundar ekki útþenslustefnu, eins og Snorri.
40 ÍF IV, hættir við (bls. 90), enginn skörungur (97), seinn til aðgerða (165).