Skírnir - 01.09.1992, Page 56
318
HELGI ÞORLÁKSSON
SKÍRNIR
Snorra goða kemur samþjöppun valds og breytingar sem valda
megnum ófriði.
Þar sem Islendingasögur lýsa horfnu samfélagi smágoða, hlutu
lesendur og áheyrendur á 13. öld að bera þetta samfélag saman
við eigin samtíma með stórgoðum, héraðsríkjum, ófriði og ákafri
valdabaráttu. Leikseigastur allra í þessum átökum, fram til um
1235, var Snorri Sturluson og það gat verið forvitnilegt fyrir þá
sem hlýddu á söguna eða lásu hana að fylgjast með störfum hinn-
ar nýju hetju 13. aldar í glímu við smágoða 10. og 11. aldar. í
reynd hefur barátta Snorra Sturlusonar við smágoða í Borgarfirði
og Húnaþingi við upphaf 13. aldar ekki verið svo fjarska ólík
glímu þeirri sem Snorri í Eyrbyggju heyr við andstæðinga sína.
Snorri Sturluson hefur vafalaust vakið forvitni manna á síðustu
áratugum þjóðveldis. Hver var hann og hvernig fór hann að?
Höfundur Eyrbyggju hefur líklega hugsað sér að veita nokkra
innsýn í þau efni. Samanburður Snorranna getur því varpað ljósi
á vinnubrögð og tilgang höfundar og áhugamál þeirra sem hann
ætlar að njóta sögunnar.
En samanburðurinn getur líka komið að gagni með öðrum
hætti. Sé eitthvað að marka þær ályktanir sem hér eru settar fram
um að Snorri goði sé gerður í mynd Snorra Sturlusonar, ætti að
mega snúa dæminu við, nota lýsingu Eyrbyggju til að varpa ljósi á
Snorra Sturluson. Þannig segir um Snorra goða, „fríður sýnum,
réttleitur og ljóslitaður, bleikhár og rauðskeggjaður“. Ekki er
ótrúlegt að þessi lýsing geti átt við um Snorra Sturluson.67 í Eyr-
byggju segir ennfremur um Snorra goða, „hann var hógvær
hversdaglega; fann lítt á honum hvort honum þótti vel eða illa“.
Nóg dæmi eru um að Snorri Sturluson hafi dulið hug sinn; eink-
um kemur það fram í samskiptum við Sturlu Sighvatsson, eins og
áður er nefnt. Ennfremur segir um Snorra goða, „langrækur og
heiftúðugur, heilráður vinum sínum en óvinir hans þóttust heldur
67 Snorri hefur þá væntanlega verið með lítið og fínlegt skegg eins og sjá má á
mannamyndum frá fyrri hluta 13. aldar. Á það má benda að Snorri segir að
Eysteinn konungur hafi líka verið „bleikhár“ og mun það lúta að ljósgulum
lit.