Skírnir - 01.09.1992, Blaðsíða 61
SKÍRNIR
SAGA GERIR MANN
323
á sögusögninni er því líka saga áheyrandans um það sem yfir
hann gengur. Líf og dauði eru andstæðurnar í þeirri sögu. Hún
hefst í einhverju venjulegu mannlegu ástandi, en í því er eitthvað
sem kallar manninn til að verða áheyrandi frásagnarinnar. Hér er
ekki um tilviljanir að tala, þær eru ekki til á þessu sviði, en það er
sögusögnin sem færir manninn með annarri veröld sinni á vit þess
dauða sem um er að ræða, en síðan hverfur hann aftur þaðan til
samastaðar síns í tilverunni hérna megin, hvort sem í hann er
hnippt til þeirrar meðalfarar eða ekki.
Hvað er það sem kemur manni til þess að gefa sig að og jafn-
vel leita tækifæra til að taka með áheyrn þátt í sögusögn? Varla
virðist hugsandi annað en að svarið við þeirri spurningu hljóti að
tengjast tilvistarhvötinni, sjálfri eðlishvötinni að lifa - úr því að líf
mitt og þitt og annarra er nú einu sinni orðið það sem það er og
er að því leyti það sem við erum. Ætli mætti ekki nefna þessa
grunnhvöt einfaldlega þrá?; án þess að láta þetta orð merkja ann-
að en það sem við þekkjum öll og ekki verður til hlítar fullnægt,
fyrr en í einhvers konar dauða; slíks eðlis er þessi sálarinnar poki,
þráin, að hann fyllist ekki fyrr en ef til vill í endanlegum dauða.
Einn eðlisþáttur þrár í þessum víða skilningi er efalaust ótti, skil-
inn sem eigind eða kerfi til að vara við því sem ógnar lífinu. Þráin
með þessum eðlisþætti, óttanum, leiðir af sér þörfina að þekkja:
þekkja veröld sína til þess að maðurinn geti verið sem öruggastur
um það fyrir hættum hennar að geta haldið áfram að reyna að
fullnægja henni, þrá sinni.
Þessi deild frumhvatarinnar, þekkingarþörfin, hefur á sér
ýmsar hliðar og á sér mörg nöfn í tungunni. Forvitni er eitt
þeirra. Hún er svo voldug, að réttnefni er að kalla hana þekking-
arhvöt. Að því er lýtur að manninum sem hlustaði á söguna sem
varð öll, spurninguna um hvað honum hafi gengið til, hlýtur
svarið að vera einmitt þetta: þekkingarhvöt. En þó má kveða ögn
nánar að með því að breyta sjónarhorni og bæta við: vanþekking,
og hugsa um leið um þá tilfinningu sem hún gefur manni. „Engin
ánægja er varasamari en sjálfsánægja af eigin þekkingu", mun vit-
ur maður hafa sagt. Þekkingarhvötin getur komið fram hvort
heldur sem meðvituð eða ómeðvituð löngun, en þennan þorsta
sem hinn þyrsti veit ekki hvernig orsakast og væri vís til að kalla