Skírnir - 01.09.1992, Side 64
326
DAVÍÐ ERLINGSSON
SKÍRNIR
almennt. Saga er mál, og undirstöðulögmál um merkingarsköpun
beggja hlýtur að standa á sama grunni.
Það er augljóst að merkingarmyndun í máli og sögu, og þau
fræðileg tök sem reynt er að beita til þess að skilja hana eru efni
sem hljóta að hafa undirstöðugildi í miklum hluta vísinda. Því að
flestum ef ekki öllum svonefndum mannvísindum, og raunar
miklu fleiri greinum, er það sameiginlegt að viðfangsefni þeirra er
maðurinn og vist hans í umhverfi sínu, heiminum, og af því leiðir
að viðfangsefnið er í raun og veru saga mannsins af sjálfum sér og
því öðru sem honum telst vera í heiminum. Það er í orði, máli,
sögu sem veruleikamynd manns verður til og henni er miðlað.
Það er spurning, sem hér verður ekki svarað, hvort til séu einhver
raunvísindi sem komast út undan því lögmáli, og þá í hverjum
mæli sumum þeirra kynni að takast það. Fullvíst er að öll vísindi
þurfa að bera skyn á eðli og takmarkanir sinna eigin boðskipta,
og að því leyti eru öll vísindi textarýni.
Af því sem sagt hefur verið er augljóst að mál og saga eru nán-
ast tvær hliðar sama fyrirbæris og mjög svo samsprottin lífinu og
lífsbaráttunni neðan úr rótum. Jafnframt því sem merking verður
til í málinu verður hún til í sögu.
Frá þeim stað þar sem við gerum okkur grein fyrir þessu og
játum því og þangað, sem fullyrt væri að veruleikinn sé ekki ann-
að en formgerðarsköpun í táknakerfum mannsins, er talsverður
vegur. Það er að sjálfsögðu ekki nauðsynlegt að afneita raunveru-
leika, enda þótt við finnum okkur knúin til að viðurkenna að sá
veruleiki mannsins sem hann getur vitað sé tákngerður. Afstaðan
milli raunsanns og tákngerðs veruleika getur ekki orðið viðfangs-
efni hér; við hljótum að hugsa út frá tilvist beggja, en reyna að
gjalda varhug við að trúa því að ósönnuðu að við komumst
þannig út yfir mál og sögu að við getum nokkru sinni öðlazt al-
menna eða vísindalega reynslu af veruleika án nokkurrar meng-
unar frá táknkerfi okkar. Með því er brenndur maður ekki að af-
neita tilvist logans. En sá sem játar því að málmerkið, t.d. orðið
köttur, sé eins konar samþykkt tilviljun þegar það er haft um
þetta sérstaka dýr, og að það sé ekki örlögbundið að orðið köttur
hefur þessa merkingu en ekki einhverja aðra, hann hefur um leið
gengizt undir það að merkingin verði til í málinu sem sjálfstæðu