Skírnir - 01.09.1992, Page 72
334
DAVÍÐ ERLINGSSON
SKÍRNIR
þetta liður í því hátterni manna sem dýra að bera kennsl sín á, þ.e.
þekkja umheiminn og koma á umhverfið heimahelgi. Vitur mað-
ur hefur orðað þetta þannig, að menn „þeki“ landslagið sögum og
geri það þannig mennskt. Slíka þörf ætla ég vera ástæðu merking-
arsogsins sem Þórhallur talar um, og með þvílíkri skýringu er
rannsóknarfyrirbæri hans, færsla nafnanna frá náttúru til manna
(ef kenningin er rétt), komið upp að hliðinni á því sem ég hef lát-
ið mér skiljast að sé hinn miðlægi samnefnari í kenningum Einars
um andlegan farangur fornmanna: ævafornar hugmyndir manna
um margs konar helgi á fyrirbærum í umhverfinu.
Staða mannshugans ífrœðunum
I hliðstæðum þeim og andstæðum sem koma fram í stöðu, fræði-
legri afstöðu og rannsóknaraðferðum mannanna beggja tel ég að
við höfum íhugunarvert dæmi um stöðu hugvísinda hjá okkur.
Áðan var sagt að hér mundi ekki verða felldur fræðilegur dómur.
I undirstöðu hans hefði þurft að gera og setja fram kirfilega út-
tekt á einstökum verkum. Hér er aðeins reynt á almennan hátt að
skilgreina markmið, aðferðir og viðhorf í stuttri lýsingu. I sam-
hengi þessa máls virðist niðurstaða af þeirri athugun verða þessi:
Þegar litið er út frá sammerkjum og kjarna allra hugvísinda
eru fræðimennirnir tveir undarlega lýsandi dæmi um klípu þess-
ara vísinda. Því að um leið og þeir eiga sammerkt að hafa sett
fram viðurhlutamiklar og umdeildar kenningar, sem varða óneit-
anlega kjarna hugvísinda vorra, þá er greinilegt að leiðir sínar að
þessu marki, mannshuganum og inntaki hans, velja þeir sér svo
fjarri hvora annarri sem verða mætti. Annar reynir að því er virð-
ist að ráðast beint að inntaki mannshugans og er sem hann vilji
handsama sannleikann um hann vafningalaust (þótt úr verði ó-
neitanlega vafningar); en hinn gruflar í afurðum mannshugans en
lætur helzt ekki sjást að hann líti í áttina til hans. Því væri ekki
rangt að segja það við van hjá öðrum sem við of væri hjá hinum.
Slík er þessi klípa, sem varðar „rétta“ stöðu mannshugans í fræð-
um okkar.
I verkum Einars og Þórhalls og viðbrögðunum við þeim
speglast áhrif raunvísindalegrar hugmyndar um hvað talizt geti
gild vísindi. Mismunurinn á aðferð þeirra mætti vekja okkur til