Skírnir - 01.09.1992, Page 73
SKÍRNIR
SAGA GERIR MANN
335
að hugsa um þörf hugvísinda fyrir eigin viðmiðanir. Fráleitt væri
að vísu að tala eins og slíkar fyrirmyndir og rökfærslur væru ekki
til. Víst eru til rannsóknir og rit um heimspeki og aðferðir vís-
inda, og í Háskóla Islands eru haldin námskeið um þau efni. En á
öld hraðfara breytinga, þegar gamlar og grónar fræðigreinar
splundrast og nýjar spíra, mér liggur við að segja út um allt, er
meiri þörf en endranær að athuga þetta allt að nýju. Læt ég nú
dæmisöguinnskotinu lokið og kem aftur að þriðju sögu.
Það er saga þess manns sem greindi sögu mannsins sem hlýddi á
upphaflegu söguna, sögu 1. Saga áheyrandans er því saga 2, og
saga greinandans er saga 3. Áður var reynt að draga upp með al-
mennum dráttum stöðu þessa manns í þeirri heimsmynd sem við
honum blasti og honum innrættist næstum óhjákvæmilega, og
átta sig á þeirri afstöðu hans og aðstöðu gagnvart fræðum sínum
sem af hlaut að leiða. Reynt var, m.ö.o., að marka sjónarhól hans
og samastað, þaðan sem hann lítur bæði heiminn og fræðin. Það
sem hann sér þaðan er heimsmynd hans og hún hlýtur að ráða
fjarska miklu um hvað hann tekur sér fyrir hendur af fræðilegum
rannsóknarefnum og hvernig hann vinnur úr þeim, eins og áður
var bent á.
Heimsmynd og vísindi
Nú hefur um sinn verið önnur öld, öld miklu örari breytinga en
áður. Segja má að tíminn sé orðinn allur annar en var, þannig að
hætt er við að sá sem stundaði háskólanám í mannvísindum, til að
mynda á árunum upp úr 1960, og hélt sig þá hafa numið nokkuð
sem dygði sem raunverulegur þekkingarbotn (féll í gildru sjálfsá-
nægju og þar með sjálfsnægðar þekkingar sinnar?), hann viti nú
ekki hvað um er að ræða og tefla þegar hann reynir að lesa fræði-
bækur í sömu vísindum 20-30 árum síðar. Það sem á milli ber er
ekki lítið. Hafi vísindin sem hann lærði verið um íslenzkar
menntir, bókmenntir, menningu, þá er það ekki sízt klifunarstef
þessarar greinar sem ber á milli: Það að málið, saga, frásaga, sé að
sínu leyti fyrst til allrar vitneskju og vísinda. Spakmælið „Orð eru
til alls fyrst“ var eiginlega ekki til sem undirstaða hugsunarinnar á
þeim tíma þegar raunvísindahyggjan mótaði hugina. Afstaðan