Skírnir - 01.09.1992, Síða 82
344
DAVÍÐ ERLINGSSON
SKÍRNIR
kynning og skiljanlegasta umræða sem ég hef rekizt til kynna við um
kenningar þessa fræga sálarfræðings og þýðingu þeirra.
Gjalda vil ég þakkarskuld bandarískum sálarfræðingi og félagsvís-
indamanni, Donald E. Polkinghorne, með því að nefna hér bók hans
Narrative Knowing and the Human Sciences (New York 1988), sem
vakti mér furðu, og sú furða kom mér til umhugsunar sem hefur gert
mér ljóst, að sú meinsemd háskólafræða sem hann leggur til atlögu við
að reyna að bæta með bók sinni, hún er líka til hjá okkur og miklu,
miklu víðar. Sem reyndur háskólamaður í félagsvísindum vestra hefur
Polkinghorne orðið þess áskynja að kandídatarnir úr félagsvísindadeild-
um skólanna séu harla vanbúnir til að gegna margvíslegum störfum í
þjóðfélaginu, t. d. sem sálfræðingar og félagsráðgjafar hjá fyrirtækjum og
sveitarfélögum, þar sem margt mæðir á þeim og þeir ekki færir um að
taka á því. Hvers vegna? Þetta er vel menntað fólk með ágæta þekkingu á
sínum sviðum. Polkinghorne finnur svarið og er fjöðrum fenginn yfir
því í formála sínum, og furða mín yfir svarinu er undrun þess sem ekki
var viðbúinn því að nokkur maður skyldi geta uppgötvað þannig það
sem allir ættu ævinlega að hafa vitað. En það er einmitt það að saga er í
og með og samgróin viðfangsefnunum allt í gegn og á allar hliðar. Mál
þeirra sem eru að leita ráðs við vanda er saga. Sú lykilpersóna til mannfé-
lagslegra lausna sem ekki er vel fær um að laða hana fram og ráða hana
rétt, sjá í gegn um hana alla vega, er illa stödd í sínu starfi, og er hætt við
að henni dugi lítt eindregin raunvísindaleg sérhæfing, ef þennan botn
vantar. Og hætt er við að sú vísindagrein sjálf, sem í vantaði viðurkenn-
inguna á þeim botni, yrði sem stödd á flæðiskeri. I þá veru ber líklega að
skilja vandöfnun félagsvísinda ýmissa á síðustu árum við háskóla bæði
vestan hafs og sums staðar austan, eða sem eins konar timburmenn eftir
missta trúna á að slík vísindi sé gerlegt að stunda með árangri til lengdar
sem raunvísindi, enda þótt þau séu um manninn. Það er hörmulegt að til
skyldu verða kynslóðir og hópar duglegra félagsvísindamanna sem
reyndu að hafa þá staðreynd ekki fyrir augum, heldur stunda „raunveru-
legri“ vísindi. Furðan yfir fagnaðarerindi Polkinghornes við félagsvís-
indamennina verður skammvinn. Dæmin eru alls staðar til, sem sýna hve
mikilvægt þetta erindi er. Hver kannast ekki við sögur um t.d. verkfræð-
inga sem lögðu vegi um sveitir lands og kærðu sig ekki um frásagnir
sveitamanna af því, hvernig snjóar legðust á vetrum? Eða hús teiknuð af
arkitektum og raðað í hverfi við götur án tillits til veðra, ef til vill með
aðaldyrnar upp í vindáttina? Það er ástæða til að þakka Polkinghorne
fyrir hjálpina við að sjá stærð vandans. Hann reynir að benda félagsvís-
indamönnum á betrunarleið í meginmáli bókar sinnar með því að rekja
helztu kenningar á þessari öld í ýmsum helztu greinum málmennta (mál-
vísindi, bókmenntafræði, sagnfræði o.s.frv.) fyrir félagsvísindamenn. Það
virðist mér hann gera mjög skynsamlega.