Skírnir - 01.09.1992, Page 86
348
EYJÓLFUR KJALAR EMILSSON
SKÍRNIR
myndar, hestsins sjálfs sem er aðeins einn, og eins er um allt ann-
að. Af þessari skuggalíkingu leiðir ýmislegt athyglisvert. I fyrsta
lagi það að frummyndirnar eru í einhverjum skilningi orsakir
hinna hversdagslegu eftirmynda sinna eins og venjulegur hestur
er orsök eigin skugga. Og í öðru lagi, þá er frummynd hestsins
hestur; satt að segja meiri og raunverulegri hestur en sá sem við
ríðum út eða gefum brauð í girðingu. Maðurinn í speglinum er
líka óraunverulegri en sá sem stendur fyrir framan spegilinn.
Hvað kom Platoni, þeim gagnrýna manni, til að halda fram
öðru eins og þessari kenningu? Svarið við þessari spurningu er
margþætt, en ég held að Harold Cherniss komi nálægt kjarna
málsins í frægri ritgerð sinni, „Heimspekileg hagkvæmni frum-
myndakenningarinnar".2 I þessari ritgerð dregur Cherniss fram
hvernig fjölmargt í grískum hugmyndaheimi á dögum Platons
hneig í þá átt að engir algildir mælikvarðar væru til hvort heldur á
þekkingu, á siðferði eða jafnvel á það hvað er til. Varðveist hafa
fleyg brot tveggja af heldri hugsuðum kynslóðarinnar á undan
Platoni sem sýna vel þessi viðhorf. Hinn kunni fræðari Próta-
góras frá Abderu ritaði bók sem bar titilinn Sannleikurinn,3 Hún
er nú því miður glötuð en upphafslínur hennar hafa þó geymst og
hljóða svo: „Maðurinn er mælikvarði allra hluta, þeirra sem eru
að þeir séu, þeirra sem eru ekki að þeir séu ekki“.4 Og eftir Gorg-
íasi frá Leontíni, öðrum áhrifamanni þessarar aldar er haft: Ekk-
ert er til; en ef eitthvað væri til, þá gætum við ekki þekkt það; og
ef við gætum þekkt það, gætum við ekki komið orðum að því.5
Hér er því miður ekki tóm til að rekja ástæður þessarar efa-
og afstæðishyggju að neinu ráði. Tvö almenn atriði skulu þó
nefnd. I fyrsta lagi er rétt að minnast þess að þegar Prótagóras,
Gorgías, Sókrates og Platon voru uppi höfðu Grikkir lagt stund á
heimspeki og vísindi af kappi í hartnær 200 ár. Árangurinn var
2 Harold Cherniss, „The Philosophical Economy of the Theory of Ideas“, The
American Journal of Philology 57 (1936), 445-56.
3 Sbr. Þeaítetos 166 C-170 A.
4 Protagoras frá Abderu, brot 1 =Díogenes Laírtíos, Heimspekingaævir 9, 50.
5 Sbr. Gorgías frá Leontíni, brot 3=Sextos Empeirikos 7, 65 o. áfr., sbr. einnig
Aristóteles, De Melisso, Xenophane, Gorgia 971 a 11 o. áfr.