Skírnir - 01.09.1992, Page 89
SKÍRNIR
SÓLIN, HELLIRINN OG HUGSANIR GUÐS
351
e. Kr. og hún gekk raunar í nokkuð breyttri mynd inn í kristna
guðfræði eins og ég mun síðar víkja að. Á síðari öldum aðhyllast
hana hins vegar fáir. Helst eru það stærðfræðingar og heimspek-
ingar á sviði stærðfræðinnar sem hafa haldið fram einhvers konar
frummyndakenningu um fræði sín, til dæmis margir helstu frum-
kvöðlar stærðfræðilegrar rökfræði í lok síðustu aldar og á fyrri
hluta þessarar svo sem Gottlob Frege, Bertrand Russell og Kurt
Gödel.8 Einnig má víða heyra óm frummyndakenningarinnar í
máli skálda og listamanna, svo sem þegar Halldór Laxness talar
um hinn eina sanna tón sem ekki verði með eyrum numinn.
En yfirgnæfandi meirihluti atvinnuheimspekinga á okkar dög-
um vísar frummyndakenningunni á bug. Fyrir því eru ýmsar á-
stæður. Ein er ugglaust sú að mönnum virðist kenningin, a.m.k. í
þeim búningi sem Platon bjó henni, of skáldleg og ekki nógu
öguð fræði til að taka hana alvarlega. I öðru lagi gengur allur andi
kenningarinnar þvert á ríkjandi viðhorf sem kenna má við raun-
hyggju eða efa- og afstæðishyggju. Flestir álíta að ekki einungis sé
mestöll þekking - trúi þeir því á annað borð að þekking sé til -
tilkomin með skynjun og reynslu, heldur séu hugtökin sem við
höfum yfir að ráða hugsmíðar okkar, búin til úr efniviði skynjun-
arinnar. En samkvæmt frummyndakenningunni er þessu einmitt
öfugt farið. Algengasta viðhorfi heimspekinga á okkar dögum til
þessarar kenningar má ef til vill lýsa eitthvað á þá leið að Platon
hafi vissulega haft nokkuð til síns máls er hann benti á mikilvægi
hugtakanna fyrir hugsun okkar og skilning, en hann hafi miklað
fyrir sér hlutverk þeirra og eðli með því að gera þau að sjálfstæð-
um veruleika sem bæði hugsun okkar og efnisheimurinn lúti.
Ofsagt væri ef ég lýsti því yfir að í þessari ritgerð myndi ég
freista þess að verja og endurreisa frummyndakenninguna í upp-
haflegri gerð. Raunar tek ég undir þá skoðun að hún sé á ýmsan
8 Dæmigerður stærðfræðilegur Platonismi kemur fram í riti Godfreys Harolds
Hardy, Málsvörn stœrðfrœðings, sem birst hefur í íslenskri þýðingu Reynis
Axelssonar (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, Lærdómsrit, 1972). Um
Platonisma Freges má fræðast af riti hans Undirstöðum reikningslistarinnar
(Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, Lærdómsrit, 1989), íslensk þýðing
Kristjáns Kristjánssonar, og af inngangi Guðmundar Heiðars Frímannssonar
að þeirri útgáfu.