Skírnir - 01.09.1992, Page 93
SKÍRNIR
SÓLIN, HELLIRINN OG HUGSANIR GUÐS
355
hluti - heldur búi hið gefna í sjálfri skynreynslunni. Tökum
dæmi: Eg tel mig sjá þroskaðan tómat. Hugsanlega skjátlast mér.
Kannski er enginn tómatur þarna. Kannski er mig að dreyma eða
þetta eru ofsjónir. En hvað sem tautar og raular sé ég fyrir mér
eitthvað rautt. Það verður ekki vefengt og þetta er það sem er gef-
ið. Við getum kallað þetta rauða sem birtist mér rauða skyn-
reynd. Það er athyglisvert við skynreyndir eins og raunhyggju-
menn lýsa þeim að þær virðast vera í senn eins konar hlutir (þó
ekki efnislegir hlutir) og þekking á eða vitneskja um þessa sömu
hluti: skynreyndin er rauð og hún er jafnframt bein, milliliðalaus
vitneskja um eitthvað rautt. Einmitt þess vegna virðist hún vera
eitthvað gefið: skynreyndin bæði er og er vitneskja um það sem
hún er. Þess vegna virðist enginn möguleiki á skynvillu í tilviki
hennar. Það kemst ekkert upp á milli skynreyndarinnar og vit-
neskju minnar um hana, vitneskjan um hana felur ekki í sér neina
túlkun, heldur er hún fólgin í skynreyndinni sjálfri án þess að
hugur minn leggi þar nokkuð af mörkum. En þetta er blekking,
segir Sellars: við getum ekki skynjað eitthvað sem rautt í þeim
skilningi að við vitum að það er rautt án þess að hafa náð tökum á
hugtakinu „rauður". En hugtakið „rauður" er ekki gefið milli-
liðalaust heldur lært. Því er vitneskjan um hinn rauða flöt sem
rauðan ekki bein, forhugtakaleg vitneskja, heldur felur hún í sér
virkt hugarstarf þar sem við beitum hugtaki sem við höfum
numið með ærinni fyrirhöfn.
Skynreyndir eins og ég hef lýst þeim eiga ýmislegt sameigin-
legt með frummyndum Platons. Hvorar tveggja hafa til dæmis
þann sérkennilega eiginleika að bera með sér hverjar þær eru: á
hliðstæðan hátt og rauðleikur hinnar rauðu skynreyndar blasir
við af henni sjálfri, geislar hver frummynd eðli sínu þannig að þar
er ekkert um að villast. Meðal raunhyggjumanna gegna skyn-
reyndir líka að nokkru leyti áþekku hlutverki og frummyndirnar
hjá Platoni: í fullskapaðri raunhyggju eru þær í senn grunnur
þekkingarinnar, það sem önnur þekking hvílir endanlega á, og
uppspretta og mælikvarði merkingar orða eða hugtaka sem við
notum. Til að kveða upp dóma um merkingu hugtaka vísa ég á
endanum til skynreynda sem ég þekki beint og milliliðalaust.
„Orðið „rautt“ merkir svona á litinn“, segi ég og bendi innra með