Skírnir - 01.09.1992, Page 158
420
MIKAEL M. KARLSSON
SKÍRNIR
verða myndir þeirra að falla á aðskildar keilur og stafi. Það er augljóst að
hefðum við færri en stærri keilur og stafi sæjum við ekki eins greinilega.
[. . .] En ef skynfrumurnar minnkuðu og þeim fjölgaði sæjum við engu
betur vegna þess að greinileg mynd getur ekki borist auganu þannig að
hún sé minni en öldulengd ljóss. Þannig er auga músar ekki smágerð eft-
irmynd af mannsauga. Stafir og keilur þess auga eru svipuð að stærð en
færri að tölu en í okkar augum. Mús gæti ekki greint að tvö mannsandlit
í tveggja metra fjarlægð.3
Það er næsta augljóst hvaða lærdóm við getum dregið af
þessu. Stærð og form eru náskyld. Smiður getur stækkað og
minnkað tiltekinn grip, og náttúran breytir stærð kvikinda með
þróun í tímans rás. En slíkar stærðarbreytingar hljóta að fela í sér
formbreytingar. Hlutur með tiltekið form hlýtur að vera af til-
tekinni stærð. Það er,niðurstaða Haldanes um lifandi verur. En
Haldane er líka fljótur að yfirfæra niðurstöður sínar á félagsleg
fyrirbæri. „Rétt eins og sérhvert dýr [þ.e. dýr með tiltekið form]
á sér tiltekna kjörstærð,“ segir hann, „gildir hið sama um samfé-
lög manna.“4
Mannleg samfélög eru í senn náttúrugripir og mannanna verk.
Þau verða til, breytast, þroskast og þróast fyrir tilverknað náttúr-
unnar, og þar, eins og endranær, sér náttúran um að stærð hæfi
formi og form falli að stærð. Mannlegt samfélag sem fær að þró-
ast nógu lengi hlýtur þannig að taka á sig form sem því hentar,
ella líða undir lok. En mannlegar fyrirætlanir og ráðagerðir móta
líka samfélög manna. Nokkuð er undir hælinn lagt hvort slíkar
ráðagerðir leiði af sér form sem hentar þessu tiltekna samfélagi.
Ef þessi form henta ekki stærð samfélagsins staðnar samfélagið og
ræður ekki við hlutverk sitt.
IIL
Islenska þjóðin er að mínu viti sérstök í þeim efnum sem hér um
ræðir. Þjóðir sem eru á stærð við þá íslensku og sem búa í sjálf-
3 Þýtt úr greininni „On Being the Right Size“, sem er að finna í J. B. S. Hal-
dane, Possible Worlds (Harper & Brothers: New York, 1928).
4 J. B. S. Haldane, sama rit.