Skírnir - 01.09.1992, Side 162
SKÁLD SKÍRNIS
STEINUNN SIGURÐARDÓTTIR
Ljósmynd handa syni
Rétt austan við skarðið, þar sem burknarnir vaxa, í mjög þéttum
og stórum breiðum, kemur gömul kirkja í ljós, milli trjáa með
rauðgulum berjum.
Hennar er hvergi getið í bókinni.
Þó skaltu koma nær, sonur minn, ef þú ferðast um þessar slóðir.
Þú leggur bílnum við hliðið og gengur spölinn niður að kirkju,
gegnum garðinn með mörgum krossum úr steini.
Handan við kirkjuna opnast útsýn yfir vatnið, the loch, og fjöllin.
Þetta eru blómstrandi tindar, bleikfjólubláir.
Við kirkjugarðsvegg er einn hestur ljós, og annar dökkur, nær
vatninu, á beit undir trjám með þungar krónur.
Hér eru grafir mjög ungra hermanna; Duncan Frost, sonur,
særðist til bana í Hollandi, nítján ára, 1944.
Ég sagði bílstjóranum að í mínu landi hefðu engir synir dáið á
vígvöllunum. En hungrið hefði sorfið að, öldum saman, og næstum
grandað þeirri litlu þjóð.
Svo sá ég legstein annars Duncans. Hann var ekkjumaður í hálfa
öld. Á sama stein er letrað nafn sonar hans, Roberts, sem varð
áttatíuogfimm ára.
Bílstjórinn tók mynd af mér á rauða kjólnum, með hestana tvo og
vatnið í baksýn og einn hinna skæru tinda, sem ég vissi ekki að
væru til.
Hér hefurðu myndina svo þú sért viss um að rata.
Og meðan ég man, þetta er líka myndin af ömmu í útlöndum,
sem börnin þín mega skoða, þegar þar að kemur.