Skírnir - 01.09.1992, Page 168
430
SIGURÐUR LÍNDAL
SKlRNIR
taldi sig hafa heimild fyrir því að hvorki samgönguráðherra né
aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hefðu verið reiðubúnir að axla
þá ábyrgð að fresta gildistöku laganna til 25. október og því hefði
ríkisstjórnin ætlað að beita sér fyrir gildistöku þeirra þegar í stað
ef forseti neitaði undirritun, sbr. 26. gr. stjórnarskrárinnar.5
I þeirri grein segir fyrir um framhaldið og hljóðar það svo:
Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síð-
ur lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði
allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með
leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað,
en ella halda þau gildi sínu.
I þessu ákvæði er áréttað enn frekar að forseti taki þátt í setn-
ingu laga og sé annar aðili löggjafarvaldsins. Hann hefur sam-
kvæmt þessu ekki neitunarvald, hvorki algert né frestandi, heldur
einungis málsskotsrétt til þjóðarinnar. Á móti kemur að Alþingi
hefur eins konar bráðabirgðalöggjafarvald þar til úrslit þjóðarat-
kv.æðagreiðslu liggja fyrir. Ekki eru allir á eitt sáttir um hversu
heppileg þessi skipan mála er.6 Enn hefur forseti ekki synjað
staðfestingar.
En hvað merkir undirritun ráðherra? Með henni er staðfest að
lög hafi fengið formlega rétta meðferð samkvæmt stjórnarskrá og
öðrum landslögum og séu að efni til í samræmi við stjórnarskrá
landsins, sbr. lög um ráðherraábyrgð nr. 4/1963. Hér verður að
hafa í huga að forseti situr ekki á þingi og getur ekki gengið úr
skugga um þetta með sama hætti og ráðherrar. Á þessum stjórn-
arathöfnum ber forseti ekki ábyrgð, sbr. 11. gr. stjórnarskrárinn-
ar og lætur því ráðherra framkvæma vald sitt, sbr. 13. gr. Hins
vegar er ekkert sem bannar forseta að kanna þessi atriði sjálfstætt
og láta niðurstöðu sína ráða hvort hann staðfestir lagafrumvarp
eða synjar. Almennt hlýtur forseti þó að fylgja tillögum ráðherra
sinna.
5 Morgunblaðið 25. október 1985.
6 Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Islands, bls. 268, 283, 296-97. Um þetta var
töluvert deilt á Alþingi þegar rætt var um frumvarp lýðveldisstjórnarskrárinn-
ar 1944, sbr. tilvísunargrein 4.