Skírnir - 01.09.1992, Page 169
SKÍRNIR STJÓRNSKIPULEG STAÐA FORSETA ÍSLANDS
431
Ef ráðherra neitaði að undirrita lagafrumvarp með forseta Is-
lands yrði allt annað uppi á teningnum en við synjun forseta.
Engin lög öðlast gildi, enda eðlilegt þar sem engin trygging er
fyrir því að löglega sé staðið að lagasetningu. En staða ráðherra
verður allt önnur. Ef hann neitaði staðfestingu af stjórnmála-
ástæðum - sökum andstöðu við lögin - hlytu að verða árekstrar
við þingið og hann mætti vænta vantrausts. Oðru máli gegndi ef
ástæður væru aðrar, svo sem að lagasetning væri ekki í réttu
formi eða hún færi að efni til í bága við stjórnarskrá. Synjun ráð-
herra yrði vítalaus, enda líklegt að Alþingi tæki þá lagafrumvarp-
ið til athugunar á nýjan leik. Forseti situr hins vegar áfram þótt
hann staðfesti ekki lög. Alþingi getur ekki haggað við honum.
í 28. gr. stjórnarskrárinnar er forseta íslands heimilað að gefa
út bráðabirgðalög og hljóðar greinin nú svona, sbr. 6. gr. stjórn-
skipunarlaga nr. 56/1991:
Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög, er
Alþingi er ekki að störfum. Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnar-
skrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á
ný.
Samþykki Alþingi ekki bráðabirgðalög, eða Ijúki ekki afgreiðslu þeirra
innan sex vikna frá því að þingið kom saman, falla þau úr gildi.
Bráðabirgðafjárlög má ekki gefa út, ef Alþingi hefur samþykkt fjárlög
fyrir fjárhagstímabilið.
Ákvæðið var tvímælalaust nauðsynlegt þegar Alþingi kom sam-
an annað hvert ár, stóð stutt og samgöngur voru örðugar. Þótt
Alþingi færi að koma saman ár hvert sat það einungis hluta úr ári
þannig að enn voru nokkur rök fyrir því að halda heimildinni.
Með stjórnarskrárbreytingunni 1991 var sú skipan gerð að Alþingi
situr allt árið, þannig að þingið er til taks ef lagasetningar er þörf.
Samgönguörðugleikar eru nú ekki lengur til verulegs trafala. -
Eigi að síður þótti rétt að hafa þessa heimild áfram í stjórnarskrá.
Hún er reist á þeirri hugsun að nauðsyn kunni að vera svo
brýn til skjótra viðbragða að heimila verði hinum handhafa lög-
gjafarvaldsins - forseta íslands - að gefa út bráðabirgðalög þegar
þing situr ekki. Ráðherra gerir tillögu um slík lög og leggur hana