Skírnir - 01.09.1992, Page 170
432
SIGURÐUR LÍNDAL
SKÍRNIR
fyrir forseta í stað þess að leggja hana fyrir þingið. Forseti tekur
síðan ákvörðun um hvort þau skuli gefin út eða ekki. Þar hlýtur
einkum að ráða mat hans á brýnni nauðsyn. Ef forseti fellst ekki á
að brýn nauðsyn sé fyrir hendi eða hann álítur af öðrum ástæðum
rétt að Alþingi ráði máli til lykta er honum rétt að synja erindinu
og þá verður að kalla Alþingi til starfa. Ráðherra sá sem hlut á að
máli ræður að sjálfsögðu efni væntanlegra bráðabirgðalaga og
ábyrgist einnig gagnvart forseta að fullnægt sé skilyrðum 28. gr.
stjórnarskrárinnar og öðrum lagaákvæðum, en vald hans nær ekki
lengra. Það er svo algerlega á valdi forseta hvort bráðabirgðalög
verða gefin út eða ekki og verður engum þvingunarráðum við
komið.
Ef forseti fellst á útgáfu laganna staðfestir hann þau og ráð-
herra ritar undir þau með honum. Þar sem Alþingi kemur ekki
við sögu fer forseti til bráðabirgða einn með löggjafarvaldið.7
Forseti Islands sem handhafi framkvœmdavalds
I 2. gr. stjórnarskrárinnar segir þetta um framkvæmdavaldið:
Forseti Islands og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og
öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið.
Hér má nefna að forseti skipar ráðherra og veitir þeim lausn,
ákveður tölu þeirra og skiptir með þeim störfum, sbr. 15. gr.
stjórnarskrárinnar; hann situr í ríkisráði og stjórnar fundum þess,
sbr. 16. gr.; hann veitir flest mikilvæg embætti, sbr. 20. gr.; gerir
samninga við önnur ríki, sbr. 21. gr.; stefnir saman Alþingi eftir
hverjar alþingiskosningar og setur reglulegt Alþingi ár hvert, sbr.
22. gr., 4. gr. stjórnskipunarlaga nr. 56/1991; hann getur rofið Al-
þingi, sbr. 24. gr., 5. gr. stjórnskipunarlaga nr. 56/1991; hann getur
ákveðið að saksókn fyrir afbrot skuli falla niður; hann náðar
7 Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Islands, bls. 94, 317 o. áfr. Sigurður Líndal:
„Forseti íslands og bráðabirgðalög". Dagblaðið-Vísir 4. desember 1990; „Eru
ráðherrar handhafar löggjafarvalds?“. Dagblaðið-Vísir 15. janúar 1991; „For-
menn ræða stjórnskipunarlög". Dagblaðið-Vísir 18. janúar 1991.