Skírnir - 01.09.1992, Síða 178
SKÍRNISMÁL
Sannleikar sagnfræðinnar
Guði sé lof fyrir sagnfræðinga!
Timothy Garton Ash
1 sIðustu skírnismálum fann Þorsteinn Siglaugsson að þeim orð-
um Gunnars Karlssonar í sama dálki tveimur árum áður að sagn-
fræði ætti að „þjóna og ganga inn í“ þjóðfélagið.1 Þorsteinn túlk-
ar orð Gunnars á þá leið að sé þess krafist „að sagnfræði rannsaki
fortíðina til að renna stoðum undir og styrkja forsendur núver-
andi þjóðfélags og/eða til að gera lífið bærilegt, þá krefjumst við
af henni nokkurs, sem er andstætt gagnrýninni hugsun, andstætt
efanum, andstætt sannleiksleitinni“ (191). Þetta er oftúlkun, jafn-
vel rangtúlkun, því Gunnar vill augsýnilega að sagnfræði berjist
gegn þröngsýni, alveg eins og Þorsteinn vill að hún auki víðsýni.
Langsótt er að gera Gunnari upp þá skoðun að sagnfræðingar eigi
að vera á vegum valdsins og ganga erinda ráðandi stéttar. Hann
er alls ekki að tala um sagnfræðinga sem áróðursmeistara á borð
við þorra hagfræðinga nú á dögum, heldur sem virka þátttakend-
ur í opinni og gagnrýninni umræðu. Að vilja tengja sagnfræði
við almenning og ætla henni einhvers konar lækningarmátt er
ekki endilega það sama og að játast valdinu, því þegar annar-
leiki eigin þjóðfélags kemur í ljós er eins víst að fólk krefjist
breytinga.
Eg fæ annars ekki betur séð en að Gunnar og Þorsteinn séu á
einu máli um þjóðfélagslegt gildi þess að þekkja söguna, fortíð-
ina. Ég greini að minnsta kosti engan mun á því að ætla þeirri
þekkingu sem sagnfræði aflar „að kenna okkur að meta og virða
aðra tilveruhætti en okkar eigin,“ eins og Gunnar segir (174), eða
því að ætla henni, eins og Þorsteinn, að gera „okkur betur í stakk
1 Gunnar Karlsson, „Að læra af sögunni“, Skírnir 164 (vor 1990), bls. 172-78 og
Þorsteinn Siglaugsson, „A sagnfræðin að þjóna þjóðfélaginu?", Skírnir 166
(vor 1992), bls. 188-93. Framvegis verður vísað til blaðsíðutals í meginmáli og
ljóst verður af samhengi við hvora greinina er átt.
Skímir, 166. ár (haust 1992)