Skírnir - 01.09.1992, Page 181
SKÍRNIR
SANNLEIKAR SAGNFRÆÐINNAR
443
heldur nægir að segja að hér áður fyrr, um það bil á 17. og 18.
öld, hafi fólk verið tekið af lífi fyrir tiltekna glæpi sem ekki kæmi
til greina að telja til alvarlegra afbrota nú, þar á meðal blóð-
skömm. Eitthvað var hræðilegt áður, en er það ekki lengur. Það
er allt og sumt og við öndum léttar.
Áhersla Gunnars á framreiðslu og neyslu en ekki framleiðslu
sagnfræðilegra afurða leiðir til þess að hann nánast leggur texta
sagnfræðings að jöfnu við alla aðra texta, eiginlega hvaða texta
sem er. Hann ber saman bókstafi á blöðum, en ekki það sem þeir
vísa til. Kannski er það uppgjöf fyrir einmanaleika og firringu
starfsins: „Sé það rétt hjá mér að saga sé í eðli sínu eins konar
dæmasafn um fjölbreytileika tilverunnar og eina verulega lær-
dómsgildi hennar sé þessi fjölbreytileiki, þá leiðir af sjálfu sér að
saga getur verið jafnlærdómsrík hvort sem hún er sönn eða ekki.“
Honum líður betur við tilhugsunina: „Það er líka eins gott fyrir
okkur sagnfræðinga, því þegar sleppir einföldustu staðreyndum
um einstaka atburði, þá framleiðum við lítið af efni sem er viður-
kennt sem satt svo mikið sem heilan mannsaldur.“ Flest sem í
hálfrar aldar gömlum sagnfræðiritum varðar „meiri háttar stað-
hæfingar, þróunarlínur, orsakaskýringar, tímabilaskipti“ er úrelt
og það er „hroki af okkur nútímasagnfræðingum að halda að
okkar verk eigi eftir að endast betur". Aðeins sannleikur á „mjög
lágu alhæfingarstigi“ stenst tímans tönn, er „algildur" eins og
Gunnar segir með trega, frekar efniviður en afurð. Það finnast
honum vera heldur ómerkileg sannindi: að fara rétt með stað-
reyndir er leikregla líkt og að ekki má grípa boltann í fótbolta
(176). Hann hafnar því kröfunni um að niðurstöður sagnfræði
séu „algild sannindi“ og býst allt eins við því að mörgum finnist
hann niðurlægja fræðigreinina með þeim orðum (177). I lokin
gerir hann svo létt grín að sagnfræðingum sem fást við „að leita
öruggrar vitneskju um eitthvað sem enginn hefur áhuga á að vita,
nema í mesta lagi einn eða tveir aðrir sagnfræðingar“ (178). Það
er óréttmæt athugasemd, því slengt er saman öruggri vitneskju
annars vegar og áhugaleysi hins vegar eins og ekki geti verið til
örugg vitneskja sem jafnframt er áhugaverð. Niðurstaða Gunnars
er sú sama og áður: þetta er óþarfa puð og satt að segja vita til-
gangslaust.