Skírnir - 01.09.1992, Page 191
SKÍRNIR
HARÐARSAGA
453
á“ (Hrafnkatla, s. 22). Litlu síðar segir Sigurður að höfundur Hrafnkels
sögu sæki efni til örnefna og búi til persónur og atvik eftir þeim (sama
rit, s. 46). Það er líkt og slík viðhorf séu leiðarhnoða aðalútgefanda If
XIII, en hann gengur mun lengra, því að þegar sannleiksgildi örnefna-
skýringa í sögunum þrýtur, verður að skýra örnefni á nýjaleik og finna
sögunum aðra kveikju en atburði sem hafa einhverntíma gerst. Og er það
meginviðfangsefni hans og ber næstum aðra skýringarþætti sagnanna í
bindinu ofurliði einsog síðar verður ögn vikið að.
Þegar fjölmörg örnefni sem koma fyrir í sögunum í //XIII hafa verið
skýrð að nýju - án sögu - verður harla lítið eftir af sannleiksgildi sagn-
anna. Þórhallur hefir hvarvetna athugað staðhætti af eigin raun og notið
aðstoðar kunnugra heimamanna og jarðfræðinga til þess að skýra fyrir
sér náttúrufar eða búskaparhætti sem kveikt hafi örnefni á hverjum stað
og í mörgum tilvikum styður hann örnefnaskýringar sínar með því að
vísa til skýringa á hliðstæðum örnefnum í nafnfræðibókum úr grann-
löndum okkar. Með þessu verklagi sér Þórhallur yfir óbyggt land úr
sporum hins norræna sæfara, landnámsmannsins sem valdi kennileitum
nöfn eftir þeim heitum sem hann þekkti heiman frá sér eða úr löndum
sem hann hafði gist - og eftir náttúrufari í landinu nýja: slútandi kletti,
spjótlaga hólma, hvalbökuðu felli eða gruggugri vík. Og lesandi hrífst
jafnan með, sér landslagið fyrir sér í hverri skýringartilgátu, til að mynda
þegar nafnið Gullfoss er skýrt í morgunsól með orðum hjónanna á Þór-
isstöðum í Þorskafirði (s. xxi), ellegar þegar hulu er skyndilega svipt af
álfabyggð í hólum á Snæfellsnesi og sjá: álfar sitja þing inni í gíg; hér eru
Aðalþingshólar þar sem vísa í Bárðar sögu nefnir Aðalþegnshóla (s. xcvi).
Flestar örnefnaskýringar í formálanum eru settar fram af sannfærandi
hugkvæmni. Dæmi má nefna: Dögurðarnes er landsvæði þar sem verka-
fólk mataðist; Bollastaðir eru kenndir við bolla, laut í landslagi eða bola,
þ.e. naut; Frakkadalur og Frakkamýri draga nöfn af „frakka" sem þýðir
stórgert hey; Sölvahamar er sá hamar þar sem sölvafjara er undir; Blá-
skeggsár eru kenndar við svarbláa líparítkletta og Hallmundarhraun skal
fyrrum hafa heitað Hallandahraun en að breyttum miðlið verður til
mannsnafnið Hallmundur í hraunsnafninu (s. ccviii). Hætta er þó á að
sumstaðar bregði fyrir alhæfingum og að örnefni sem sögurnar skýra út
frá mannanöfnum séu að ósekju beygð undir þá tilgátu Þórhalls að mörg
örnefni sem hafa mannanöfn að forlið séu að upphafi náttúrunöfn, og
þar með sé horft framhjá ákveðnum þáttum sem eru óaðskiljanlegir því
samfélagi sem sögurnar eru sprottnar úr. Skal nú ögn að þessu vikið.
í formála fyrir Harðar sögu rekur Þórhallur margt sem honum sýnist
vekja „efasemdir um áreiðanleik frásagnanna af Herði Hólmverjakappa“
(s. xxx) og leiðir í ljós hvernig söguhöfundur notar örnefni sem heimildir
og sækir í þau nöfn margra persóna og les atburði í ýmsum tilvikum úr
örnefnum (s. xli). Því næst telur Þórhallur rök fyrir þeirri skoðun, sem