Skírnir - 01.09.1992, Qupperneq 197
SKÍRNIR
HARÐARSAGA
459
riti sem talið er frá upphafi 14. aldar: „Nú sem þeir menn er komnir voru
af Effraim hurfu í mót heiðingjum handtóku tveir af þessum höfðingjum
er áður voru nefndir Oreb og Zeb og drápu þá báða þar sem síðan eru
örnefni við kennd“ (Stjórn, Christiania 1862, s. 394). I Egils sögu Skalla-
grímssonar er orðlík sögn þar sem segir frá þrælum Lamba á Lamba-
stöðum sem drepnir voru víða um Mýrar „þar sem síðan eru ornefni við
kennd“ (Islenzk fornrit II, Rvk. 1933, s. 241, sbr. Islenzk fornrit I, s.
168). I íslenskum fornritum, einkum Landnámu, eru þónokkrar hlið-
stæðar sögur um að kennileiti dragi nöfn af mannfalli, oft af þræladrápi
hinna göfugu landnámsmanna (sjá t.d. Islenzk fornrit I, s. 44, 109, 166,
168, 386). Örnefni tengd slíkum sögnum hafa eflaust festst skýrar í
minni þeirra sem áttu og nytjuðu landið og fóru um það. Því má ætla að
það hafi verið jarðeigendum og verkstjórum í hag að ritfær skáld á fram-
færi þeirra festu örnefni með minnisverðum sögum á skinn til þess að
auðvelda stjórnsýslu, ferðalög og hverskyns landnytjar.
Viðurkennt er að að baki varðveittum gerðum Landnámu liggi með
einhverju móti hagsmunir jarðeigenda. Fyrir þeirri skoðun hafa þeir
hvor í sínu lagi Barði Guðmundsson og síðar Sveinbjörn Rafnsson fært
haldbær rök í skrifum sínum um Landnámu. Mér þykir líklegt að sumar
örnefnasögur í Landnámu sem lúta að fylgdarliði landnámsmanna, þræl-
um, vinum og frændum, séu runnar frá skiptingu stærri jarða í útjarðir
eða smærri jarðir. Örnefnasagnirnar bera sumar með sér að vera bundnar
ákvörðunum um leigulönd og skrásetningu þeirra og vera ætlað að festa í
minni manna útjarðir, kennileiti þeirra og landamerki. Landsleiga var
nánast eini vegur til auðræða á Islandi enda varð landsleigubálkur þunga-
miðja í lögbók íslendinga og lagði grundvöll að landeigendaveldi og
kjörum leiguliða. Því má láta sér til hugar koma að örnefnasagnir í Land-
námu og íslendinga sögum standi sumar á sömu rót og landsleigubálkur
Jónsbókar sem mun sprottinn af langtíma þörf jarðeigenda til þess að á-
vaxta pund sín að lögum í erfiði leiguliða.
Þær spurningar leita á hvort örnefnaskýringar í sögum einsog Harðar
sögu, Bárðar sögu og Þorskfirðinga sögu eigi sömu upptök og svipaðar
sögur í varðveittum gerðum Landnámu og hvort örnefnaskýringum hafi
í upphafi verið ætlað sérstakt hlutverk í þágu landeigenda á 13. öld. Því
er ekki að leyna að mér virðast örnefnaskýringar í IfXlll gjalda þess að
örnefnaskýringum í Landnámu sjálfri hafa ekki verið gerð skil, ekki
reynt að grafast fyrir um upphaf þeirra sérstaklega eða hvað hafi vakað
fyrir Landnámuhöfundum með örnefnasögum. Sé gert ráð fyrir að
Landnáma hafi verið gerð alllöngu á undan Islendingasögum, og að þær
sæki fróðleik í Landnámu, hljóta skýringar á örnefnasögum Islendinga-
sagna án undangenginnar rannsóknar á örnefnasögum í Landnámu að
vera á holum grunni. Undirstöður nýrra örnefnaskýringa sem fella úr
gildi örnefnaskýringar fornsagnanna sjálfra virðast mér því enn vera
faldar einhverstaðar þar í byggðum sem Landnáma varð til.