Skírnir - 01.09.1992, Page 200
462
GUÐRÚN ÁSA GRÍMSDÓTTIR
SKÍRNIR
Léttúðugar hugleiðingar mínar hér á undan um hlutverk örnefnasagna
hafa vaknað við lestur formála //XIII og annarra greina eftir útgefanda
þess bindis. Hér hefir verið dvalið við örnefnaskýringar, en fleira ónefnt
er áhugavert við þessa fornritaútgáfu. Hugkvæmni útgefanda nýtur sín
til að mynda vel í formálsorðum fyrir Bergbúa þætti þar sem settar eru
fram merkilegar hugmyndir um að í Hallmundarkviðu sé skírskotað til
eldsuppkomu í hlíðum Langjökuls á sögulegum tíma og bent á að berg-
risinn Hallmundur sé einskonar persónugervingur náttúruhamfara (s.
ccx).
Þórhallur Vilmundarson fer kunnar slóðir í frágangi texta og útgáfan ber
í hvívetna merki um fágæta vandvirkni og þann tíma sem það tekur að
klæða fornsögur búningi Islenzkra fornrita svo úr verði fróðleiksfull les-
bók, ólík skjótunninni stofubók í öskju. Hvergi bregður fyrir hálfkær-
ingi, allstaðar eru varnaglar slegnir og ekkert njörvað niður. Til marks
um vandvirkni útgefanda er að ekki hefi ég rekist á nema eina prentvillu
(s. 67, lína 14; hana, les bana). Þórhalli tekst vissulega að vekja marg-
slungnar spurningar sem er aðall hvers vísindamanns. Hann ýtir við trú á
sannleiksgildi fornsagna sem fyrr segir, gerir Hörð Grímkelsson, hetjuna
vitru í hólminum, að munkagrillum og Bárð Snæfellsás, hinn lögvitra
verndara Jöklara, að hraunbörðum. En hann gerir jafnframt ráð fyrir því
að hugarflug höfunda sé bundið veruleikanum og leitar hiklaust skýringa
að hætti hinna fyrri útgefenda Islenzkra fornrita milli þúfna á söguslóð-
um og í lagabálkum Grágásar. Því hlýtur hann að ætla að sögurnar lýsi
að nokkru raunverulegum heimi enda mun það nú ríkjandi viðhorf til Is-
lendingasagna. Má til að mynda benda í því samhengi á skoðanir banda-
ríska fræðimannsins William Ian Millers í ritinu Bloodtaking and
Peacemaking (Chicago 1990); ekki hikar hann við að segja að sögurnar
lýsi raunverulegum heimi (sjá t.d. s. 76).
Styrkur íslenskra fornsagna er ekki síst sá heimur sem þær lýsa. Og
þar leynast uppsprettur margra örnefnasagna sem einsog vænta má bera
merki hvorstveggja; hugarflugs hinna ágætu höfunda fornsagnanna og
náttúru íslands. Má að lokum taka dæmi þessa úr Skjaldabjarnarvík á
Ströndum, sem raunar heitir Skjaldavík í máli manna. Landnáma segir að
Hella-Björn hafi numið land og búið í Skjaldabjarnarvík og Sturlunga
saga segir að Þórður Þorvaldsson í Vatnsfirði greiddi Sturlu Sighvatssyni
í bætur fyrir víg og áverka á mönnum m.a. átján hundruð í reka í
Skjaldabjarnarvík ekki löngu eftir að gert er ráð fyrir að Styrmir fróði
Kárason hafi lokið við Landnámu sína, en nokkru fyrr en Sturla Þórðar-
son setti saman sína Landnámu (Sturlunga saga I, s. 341; If I, s. cv, lxxv,
197). - í þessari rekasælu vík má sjá þokuslungnar andlitsmyndir land-
námsmanns í klettum yfir votum skerjum sem sum eru bungumynduð
og blikar á einsog væru þau alskjölduð skip komin af hafi.