Skírnir - 01.09.1992, Síða 202
464
ÞÓRIR ÓSKARSSON
SKÍRNIR
landi bar hæst útgáfur fjölmargra rita þar sem Snorri er ýmist höfundur
eða viðfangsefni. Meðal fyrrnefndu ritanna eru textaútgáfa Anthony
Faulkes á Háttatali Snorra-Eddu, Edda. Háttatal; frönsk þýðing á
Gylfaginningu og Skáldskaparmálum Snorra-Eddu eftir Frangois-Xavier
Dillmann, L’Edda. Récits de mythologie nordique; og ný sænsk þýðing
eftir Karl G. Johansson á fyrsta hluta Heimskringlu, Nordiska sagor.
Frán Ynglingasagan till Olav Tryggvasons saga. Af síðarnefndu ritunum
má aftur á móti geta verka norsku sagnfræðinganna Sverre Bagges, Soci-
ety and politics in Snorri Sturlusons Heimskringla, og Claus Krags, Yng-
lingatal og Ynglingesaga; skýringarrits ensku fræðikonunnar Diana
Whaleys, Heimskringla. An Introduction; og bókar Finnboga Guð-
mundssonar, Gamansemi Snorra Sturlusonar. Utgáfa þessara rita vitnar
ljóslega um þann mikla og fjölbreytilega áhuga sem nú er víða um lönd á
norrænum fornbókmenntum. Því er ekki að efa að margir munu leita
eftir þeim bókmenntastyrk sem íslenska ríkið hyggst efna til og kenndur
verður við Snorra, en styrkurinn er ætlaður erlendum rithöfundum,
fræðimönnum og þýðendum sem vilja dveljast hér á landi við rannsóknir
og skriftir.
I þessari grein verður rætt um enn eitt Snorrarit frá síðasta ári, alþýð-
lega lestrarútgáfu konungasagna hans, Heimskringlu. Jafnframt því verð-
ur tekið nokkurt mið af nýjustu skrifum um verkið og höfund þess.
Þessi textaútgáfa Heimskringlu er hin fyrsta hér á landi í fjörutíu ár eða
allt frá því að Bjarni Aðalbjarnarson lauk verki sínu fyrir Hið íslenzka
fornritafélag.2 Það var því löngu tímabært að yngstu kynslóðirnar fengju
„eigin útgáfu" af þessu höfuðriti íslenskra miðaldabókmennta. Að henni
stendur sami hópur og gaf út Islendinga sögur og þætti I-II/III
(1985/1987) og Sturlunga sögu I—III (1988) á vegum bókaforlagsins
Svarts á hvítu. Útgáfuformið er líka í meginatriðum sama og þar. Sög-
urnar eru prentaðar með nútímastafsetningu (og mun það vera í fyrsta
skipti sem slíkt er gert) en ýmsum fornum orðmyndum er haldið, „eink-
um til að gefa lesendum nokkra hugmynd um fornt yfirbragð textans án
þess að torvelda þeim lesturinn" (I, vii). Til þess að tefja ekki lesturinn er
textinn sömuleiðis birtur án lesbrigða og neðanmálsskýringa.
Til þess að uppfylla þarfir þeirra sem hafa áhuga á baksviði verksins
fylgir hins vegar sérstök Lykilbók með tæplega hundrað síðna inngangi.
Þar ræðir Guðrún Ása Grímsdóttir um ævi Snorra og ritstjórar um
helstu einkenni Heimskringlu sem bókmenntaverks og stöðu hennar
meðal norrænna konungasagna, auk þess sem Sverrir Tómasson fjallar
2 Snorri Sturluson. Heimskringla I—III. (íslenzk fornrit XXVI-XXVIII.)
Reykjavík 1941-1951. Á fimmta áratugnum birtust að auki tvær aðrar Heims-
kringluútgáfur hér á landi, Steingríms Pálssonar (1944) og Páls Eggerts Óla-
sonar (1946-1948).