Skírnir - 01.09.1992, Síða 218
480
VÉSTEINN ÓLASON
SKÍRNIR
verið fullsamin fyrir æði löngu þótt prentun hafi dregist vegna fjárskorts
útgefanda.4 En höfundur hefur þó greinilega átt þess kost að taka tillit til
nýjustu rannsókna í þessari prentuðu gerð.
Viðfangsefni bókarinnar eru nokkur kvæði eða flokkar vísna sem
segja frá ófriði eða, í einu tilfelli, sættum. Auk þess eiga þau það sameig-
inlegt að fornir sagnaritarar og nútímafræðimenn hafa rangtúlkað form
þeirra og frásagnarhátt. Höfundur telur að þau myndi sérstaka kvæða-
grein (genre), en líklega væri þó heppilegra að tala um undirgrein (sub-
genre). Frásögnin í þessum kvæðum er mjög stuttaraleg, notað er ávarp
og eintal, og söguleg nútíð er algeng innan um þátíð. Söguþráður er ó-
samfelldur og skrykkjóttur, og brýtur að því leyti í bága við þá frásagn-
arhefð sem flestir nútímalesendur taka sem gefnum hlut. Meginatriði
hennar er að hver frásögn er tengd saman af einstaklingsvitund, hvort
sem hún er heldur bundin sögupersónu, söguhöfundi eða lesanda. Ymsir
straumar í nútímafrásögn hafa risið gegn þessari hefð og er uppreisnin
gjarnan tengd við sundrun einstaklingsvitundar í nútímanum. Poole tel-
ur hins vegar að frásagnaraðferð dróttkvæðanna bendi fremur til að sú
einstaklingsvitund, eða það sálfræðilega sjálf, sem sé að splundrast í nú-
tímanum, hafi enn ekki verið fastmótað í því samfélagi þar sem þessi
kvæði urðu til. Það er vægast sagt óvenjulegt í umræðum um dróttkvæði
að þau séu dregin inn í miðdepil þeirrar bókmenntafræðilegu umræðu
sem efst er á baugi í samtímanum, og m.a. þess vegna full ástæða til að
gefa þessu riti gaum. Varðandi þessa síðustu hugleiðingu um sjálfið, skal
ég þó taka fram að mér finnst efniviðurinn varla nógu traustur eða mikill
til að á honum verði reistar slíkar niðurstöður. Það leiðir af meginskiln-
ingi höfundar á þessum kveðskap að atburðir eru settir á svið eins og
vitni lýsi þeim. Þótt slík frásögn verði samhengislaus þarf það ekki að
leiða af samhengisleysi í sjálfsvitund þess sem kveður.
Kvæðin sem fjallað er um í bókinni eru öll varðveitt sem hluti af
sögu, annaðhvort í heilu lagi eða á dreif innan um lausamálsfrásögn.
Samband þeirra við lausamálið er því mikilvægt og er tekið til almennrar
athugunar í inngangi. Meginniðurstaðan er að ýmis öfl hafi átt þátt í að
brjóta niður kvæðisheildir í vísur sem eru settar fram í texta sem lausa-
vísur bundnar ákveðnum tækifærum. Þetta er vafalaust rétt og hvetur til
árvekni og áframhaldandi könnunar á því hvort vísur sem taldar eru
lausavísur í texta séu í raun og veru brot úr samfelldum kvæðum.
4 Mér finnst ástæða til að geta þess sérstaklega að prófarkalestur bókarinnar er
mjög vandaður og tilvitnanir nákvæmlega uppteknar, en það er því miður
alltof algengt í annars ágætum fræðiritum um íslensk og norræn fræði, sem
prentuð eru erlendis, að tilvitnanir í frumtextana séu fullar af ónákvæmni og
smávillum.