Skírnir - 01.09.1992, Qupperneq 220
482
VÉSTEINN ÓLASON
SKÍRNIR
líklegast að kvæðið sé eldra en talið er í Njálu og fjalli um atburði frá
öndverðri 10. öld, nánar tiltekið orrustu milli Norðmanna og Ira árið
919. Sú hugmynd var að vísu sett fram fyrir 70 árum,7 en hefur lítt verið
haldið á lofti síðan. Ástæðan til þessarar hugmyndar er sú að ekki er
auðvelt að samræma lýsingu kvæðisins frásögn Njáls sögu og annarra
heimilda um Brjánsbardaga. En það er auðvitað djörf tilgáta sem varla
verður nokkru sinni sönnuð eða óumdeild, eins og Poole viðurkennir, að
kvæðið sé enn eldra en Njála segir og ort a.m.k. hálfri fjórðu öld áður en
það var fest á bókfell. Á 12. öld var ort talsvert af sögukvæðum undir
dróttkvæðum háttum um löngu liðna viðburði, og nokkur slík kvæði
voru ort í Orkneyjum. Darraðarljóð virðast í fljótu bragði eiga nokkuð
vel heima í þeim flokki. Ástæða er til að kanna þetta frekar, en Russell
Poole hefur í bók sinni lagt prýðilegan grundvöll fyrir slíka rannsókn,
hvort sem niðurstöður hans öðlast fylgi eða ekki.
Auk þeirra fjögurra kvæða sem hér hefur verið getið og kalla má að
myndi samstæða heild í heimildum hvert um sig, þótt fræðimenn hafi
gert eitthvað af þeim að lausavísum, setur Poole fram tilgátu um þrjú
kvæði (flokka) mynduð af vísum sem skýrlega eru kynntar sem lausavís-
ur. Það er 5 vísna flokkur varðveittur í Orkneyinga sögu og víðar, „Ein-
ars flokkur", um föðurhefnd Torf-Einars Orkneyjajarls; vísur Egils um
viðureign við Ljót bleika, sem standa í Egils sögu; og flokkur um Heiðar-
víg eftir Eirík viðsjá úr Heiðarvíga sögu. Hann gerir þá ráð fyrir að um
sé að ræða kvæði sem lifað hafi sem heild í munnlegri geymd, þótt þau
þurfi ekki að vera réttilega eignuð hinum nafngreindu skáldum. Þannig
telur hann vísur um einvígið við Ljót bleika fremur ungar en þó tengdar
efni Egils sögu áður en hún var skráð. Áður hefur Poole sett fram svipað-
ar hugmyndir um nokkrar vísur úr Gunnlaugs sögu og um vísur Þórar-
ins Máhlíðings í Eyrbyggja sögu, sem hann telur vera sjálfstæð kvæði,
e.t.v. frá 12. öld, sem höfundar þessara sagna hafi leyst í sundur og notað
sem heimildir.8
Niðurstaða þessara rannsókna verður eins og fyrr segir að kvæði um
bardaga (og sáttargerð) lögð í munn þátttakanda í atburðum, sem við-
brögð við því sem er að gerast og lýsing á því gerð jafnóðum („running
commentary“), hafi verið sérstök kveðskapargrein. Aðalatburðarásin er
þá tjáð með sögnum í nútíð en þátíð eða núliðin tíð notuð um atburði
sem eru að baki þegar orðin eiga að vera töluð. Poole greinir þetta síðan
nánar sundur í tvo flokka, en ekki skal það rakið hér. Athyglisverður
þáttur í greiningu þessara kvæða fjallar um sjónarhorn og afstöðu mæl-
7 Nora Kershaw, Anglo Saxon and Norse Poems (Cambridge 1922), 116.
8 Sbr. „Compositional Technique in Some Verses from Gunnlaugs saga,'
Journal of English and German Philology 80 (1981), 469-85 og 3. nmgr.