Skírnir - 01.09.1992, Page 221
SKÍRNIR
DRÓTTKVÆÐIUM STRÍÐ OG FRIÐ
483
anda, en auk þess er áhersla lögð á vísanir og formleg tengsl milli ein-
stakra erinda sem binda kvæði saman í heild. Dramatískar aðstæður
þessara kvæða hafa síðan orðið lausamálshöfundum kveikja að frásögn-
um þar sem vísunum er dreift um textann, en fræðimenn hafa tekið svið-
setninguna bókstaflega. Hin listræna blekking hefur heppnast og við-
brögð fræðimanna verða dálítið í ætt við hátterni bíógestsins sem hrópar
upp til að vara hetjuna við óvini sem liggur í leyni.
Hugmyndir þessarar bókar verðskulda miklu nánari umfjöllun en
þær fá hér, og í fyrstu má búast við að þær verði einkum ræddar í sam-
bandi við einstakar sögur eða kvæði fremur en í heild. Mikilvægi rann-
sóknarinnar er ekki eingöngu í því fólgið að þar eru dregin fram samstæð
kvæði sem áður hefur lítill eða enginn gaumur verið gefinn og skáld-
skapareinkenni þeirra leidd í ljós. Það hefur einnig talsverð áhrif á hug-
myndir um þróun sagnalistar hvort gert er ráð fyrir því áfram að mikill
hluti af vísum þeim sem vitnað er til í sögum hafi upphaflega verið lausa-
vísur, annaðhvort ortar á þeim stað og stund sem sögurnar segja, og þá
varðveittar með nokkrum skýringum í lausu máli, „Begleitprosa", ellegar
ortar til að skreyta sögurnar af höfundum þeirra. Hugmyndir Poole
beina athygli að þriðju skýringunni: millilið milli söguhetju og sagnarit-
ara, skáldi sem setur saman kvæði í tengslum við söguefni, etv. á grund-
velli sagna, etv. sem eins konar viðauka við sagnir, kvæði sem síðan verð-
ur meðal heimilda sagnaritarans.
Sjálfsagt má deila og verður deilt um ýmsar af niðurstöðum Russell
Poole í þessari bók, en um það verður ekki deilt að hún ber vitni mikilli
þekkingu á viðfangsefninu og vönduðum fræðilegum vinnubrögðum.
Engin fyrirhöfn hefur verið spöruð að leita uppi heimildir, bæði eldri og
yngri, og höfundur rökstyður mál sitt jafnan vel þótt efniviðurinn sé
ekki alltaf nógu mikill eða traustur til að leyfa óyggjandi ályktanir.