Skírnir - 01.09.1992, Side 223
SKÍRNIR
AÐ FERÐAST TIL LWÓW
485
plönturnar, blað fyrir blað, en þær uxu,
uxu eins og ekkert hefði í skorist, og gleðin lá
hvarvetna í leyni, á göngum og í kaffikvörnum
sem möluðu sjálfknúnar, í himinbláum
tekötlum og í sterkjunni sem var fyrsti
formalistinn, í regndropum og í þyrnum
rósa. Undir glugganum fölnaði gegnfrosið vorgull.
Klukkurnar klingdu og loftið nötraði, nunnuhattar
liðu eins og skonnortur hjá
leikhúsinu, veröldin var svo mikil
að það varð að klappa upp, ótal sinnum,
áhorfendur trylltust í salnum og neituðu
að fara. Móðursystur mínar vissu ekki þá
að ég mundi reisa þær upp frá dauðum einn góðan veðurdag
og lifðu í þvílíku trúnaðartrausti, þvílíku einlífi;
vinnukonurnar, þvegnar og stroknar, hlupu
eftir nýjum rjóma, á heimilunum ríkti væg
illgirni og glæstar vonir, Brzozowski
kom í fyrirlestrarferð, einn móðurbræðra minna
var stöðugt að yrkja ljóð sem hét Hvers vegna,
tileinkað Almættinu, og það var of mikið af
Lwów, hún rýmdist ekki í ílátinu,
sprengdi utan af sér glösin, flæddi yfir bakka
tjarna, vatna, belgdist sem mökkur upp úr
strompum, breyttist í loga og í byl,
hló í eldingunum, lyppaðist niður,
sneri heim, lagðist í Nýja testamentið,
svaf í sófanum við brekán úr Karpatafjöllum,
það var of mikið af Lwów, og nú er hún
alls ekki til, hún óx taumlaust,
en var klippt skærum, naprir garðyrkjumenn eins og alltaf
í maí, miskunnarlausir, ástsnauðir,
ó bíðum, brátt kemur heitur júní og mjúkir
burknar, endalaus breiða sumars eða veruleika.
En skærin klipptu, eftir línunni og gegnum
klæðið, skraddarar, garðyrkjumenn, ritskoðarar
sneiddu bolinn og blómsveigana, ódrepandi söx kepptust við,