Skírnir - 01.09.1992, Page 224
486
ADAM ZAGAJEWSKI
SKÍRNIR
eins og í dúkkulísubók hjá barni
þar sem á að klippa út dádýr eða svan.
Skæri, vasahnífar og rakvélarblöð ristu,
klipptu og skáru útblásin klæði
preláta og torga og húsaþyrpinga, trén
féllu hljóðlaust, eins og í frumskógi,
og dómkirkjan nötraði og fólk kvaddist í dögun,
þurrum vörum, vasaklútslaust, táraðist ekki,
ég sé þig aldrei framar, margfaldur dauði
bíður þín, hvers vegna þurfa allar borgir
að verða Jerúsalem og sérhver maður
Gyðingur, og nú er að taka pjönkur sínar, í flýti,
alltaf, á hverjum degi
og ferðast móður, ferðast til Lwów, hún
er nefnilega til, hljóð og skær eins og
ferskja. Lwów er alls staðar.
Pólska skáldið Adam Zagajewski er fæddur í Lwów 1945. Hann hefur
nú um nokkurra ára skeið verið búsettur í Frakklandi.
Lwów (Lvov) var um aldir ein háborg menningar í Póllandi. Eftir
seinni heimsstyrjöld hafnaði borgin í Sovétríkjunum, í Úkraínu. Fjöl-
skylda Adams Zagajewski fluttist á brott eins og flestallir Pólverjar í
Lwów, til Slésíu í vesturhluta Póllands. Ljóðið „Að ferðast til Lwów“ er
ort um miðjan síðasta áratug. Skáldið tileinkar foreldrum sínum ljóðið.
Skýringar við „Að ferðast til Lwów“:
Aleksander Fredro (1793 - 1876) var grínleikjahöfundur sem tók upp
á því á ævikvöldinu að yrkja erótísk ljóð sem jaðra við klám.
Stanislaw Brzozowski (1878 - 1911) heimspekingur og gagnrýnandi,
hafði mikil áhrif á mennta- og menningarlíf í Póllandi í upphafi aldar-
innar.
Þýðandi naut góðs af pólskukunnáttu Þránds Thoroddsen og hafði hlið-
sjón af enskum og sænskum þýðingum.