Skírnir - 01.09.1992, Qupperneq 234
MYNDLISTARMAÐUR SKÍRNIS
Sjávarmyndir
Gunnlaugs Schevings
þegar gunnlaugur scheving sýndi stóru sjávarmyndirnar sínar í fyrsta
sinn erlendis, seint á sjötta áratugnum, skrifaði sænskur gagnrýnandi að
sér dytti ekkert í hug til samanburðar úr evrópskri list; steinrisarnir á
Páskaeyjum væri það sem hann kæmist næst.
Þótt Gunnlaugur Scheving (1904-1972) fylli hóp expressjónistanna í
norrænni list, sker hann sig samt úr að þessu leyti. Flestir, ef ekki allir
aðrir, laga sig að myndsmíð sem á náinn skyldleika við höfuðstrauma
samtímans, Jón Stefánsson, Þorvaldur, Snorri, Jón Engilberts, Ásmundur
Sveinsson, svo íslenzk dæmi séu tekin, en málverk Schevings frá þessum
tíma, hvort heldur sjómanna- eða Maríuminnin, eiga sér þar alls enga
hliðstæðu. Að vísu búa þau yfir flestu því sem expressjónisminn bjó
áhangendum sínum í hendur, eigingildi forms, tjáningareðli litar, kröfu
um myndskipun sem höfuðflytjanda myndeðlisins, eða með öðrum
orðum, að hverfa frá sýnismynd ytri veruleika til eigin lifunar og
skáldskapar listamannsins. Hér voru landamörkin yfir í hreina afstrakt-
list ekki mörkuð öðru en því hvort menn nýttu sér form náttúru og
mannlífs eða hugsmíðuð form.
Það eru því hvorki hin listrænu tæki né heildarviðhorfið sem greina
Gunnlaug Scheving frá öðrum, heldur hitt, sem skiptir þar höfuðmáli:
myndefnin sem hann velur, myndsýnin, sá stórsniðni og skáldlegi sagn-
heimur sem verkin birta. Sjómanna- og Maríumyndirnar eru ekki aðeins
stærri en títt er um íslenzk málverk, heldur voldugri í sniðum á þann veg
sem táknaður er með orðinu „monumental". Þetta er klassískt dæmi um
það hversu lítið verður ráðið í dýpri skaphöfn manns af ytra æði hans:
varla gat þann mann meðal íslenzkra málara sem væri hlédrægari, jafnari
í dagfari og ósnúnari að sjálfum sér en Gunnlaugur Scheving.
Leið Gunnlaugs að þessum stórbrotnu sjómanna- og sjávarmyndum
var bæði hæg og löng. Sjómannamyndirnar sem hann teiknar og málar
austur á Seyðisfirði undir og um 1930 eru tengdar innfjarðarveiði,
„Skúta kemur að landi“, „Róið út með nótina“ og „Bassabáturinn", sem
hann sýndi á mótmælasýningunni í Landakoti 1930 og Listasafn ríkisins
lagði brátt fölur á. I þeim myndum er sjórinn kyrr, þar brakar í engum
viðum, og skálínum er þar haldið við vogréttan flöt.
Skömmu eftir að Gunnlaugur flyzt til Reykjavíkur og tekur upp
kynnin við þá jafnaldra sína, Snorra, Þorvald og Jón Þorleifsson, beinist
Skírnir, 166. ár (haust 1992)