Skírnir - 01.09.1992, Síða 235
SKÍRNIR
MYNDLISTARMAÐUR SKÍRNIS
497
áhugi þeirra að höfninni, stórum formum skipanna, hafnarkrananum
sem gnæfir yfir, mönnum og bílum á bryggju, en enginn þeirra þriggja
málar skip eða bát á sjó. Jafnvel hin stóru múrmálverk Kjarvals í Lands-
bankanum við Austurstræti sýna ekki menn á hafi, heldur alskinnaða
sjómenn að setja bát, segl og skútu; drafnarfjöllin brjóta þar á engum
kili. Undantekning er þó Finnur Jónsson, eftir að hann hvarf frá skraut-
fengnum rayonisma sínum, en þau málverk eru af all rómantískum for-
tíðartoga: einn maður undir seglum á kröppum sjó, eða menn við
handfæri í ylgju morgunsins. Um aðra málara sem glímdu við myndefni
frá sjó er varla að ræða. Jón Stefánsson hafði stöku sinnum málað sjávar-
myndir, en þó oftast undan ströndum; skip eða bát að veiðum ber ekki
fyrir í myndum hans.
Ekki held ég að fjarvera þessa myndefnis úr íslenzkri list verði skýrð
með landslagshefðinni, því sú kynslóð sem kom til verks undir og um
1930 hafði lítinn sem engan áhuga á landslagi. Miklu fremur kann orsök-
in að vera sú að haf og sjósókn tengdust ekki persónulegri reynslu
þeirra, en hitt er þó ekki ólíklegra að þeim hafi þótt nær ógerningur að
koma slíku efni saman við hin ströngu myndskipunarfræði expressjón-
ismans. Það átti Gunnlaugur Scheving þó eftir að afsanna með glæsi-
legum hætti.
Á „Reykjavíkurtímabilinu“, frá 1936 til 1940, eru sjór og skip alls
fjarri úr verkum Schevings. En á árunum eftir 1940 dvelst hann í skjóli
Sigvalda læknis og tónskálds í Grindavík, langa spretti í senn, og hér fara
dúkar hans að lifna við nýja og merkilega reynslu. Svo sem ævinlega í
verki Gunnlaugs, gerast þau umskifti mjög hægt. Fyrst málar hann hús
móti hvítfextum sjó, síðan bryggjur, þar sem bátarnir koma að, bílar,
menn og fiskkasir í nepjukrapa vetrarins. Allar eru þær myndir byggðar
um vogrétta fleti. En loks knýr að því sem verða vildi, að landjörðin er
honum ekki lengur leikvangur hugar og pensla: Hann fylgir sjómönnun-
um út, sér græn og grá haffjöllin rísa, sér mennina, sem í landi voru af
mennskri ætt, breytast í stórsniðnar kempur í gulum og rauðbrúnum
stökkum móti kaldlitum sjó. Hann kynnist þröngri veröld bátsins með
sín „natures mortes", rauðum lóðarbelg, baujuflaggi, línubjóði og gulum
þorskinum, veröld mannsins í þessu ómæli. Stundum lifir hann slíka sýn
í kaldri dagsbirtunni, en oft í aftureldingunni, þegar heit glætan frá
olíuluktunum fjarar út í auga nývaknaðs dags. Og hér er varla að láréttur
flötur sé lengur til.
I þessum stóru sjómannamyndum vegast skálínurnar á, andstæðir
litir eggja og þenja hver annan, teikning og myndskipun öll stækkar hið
stóra að þolmörkum. Samt er hér ekkert hetjulegt, í rómantískri merk-
ingu þess orðs. Það sem Gunnlaugur stefnir að og túlkar á svo mikil-
fenglegan hátt er tvíhorfið, dúalisminn: Sjómaðurinn í þröngri veröld
bátsins heldur til jafns við hafið. Hann er aldrei í helgreipum þess, og