Skírnir - 01.09.1992, Page 236
498
MYNDLISTARMAÐUR SKÍRNIS
SKÍRNIR
andvægið á milli tekur aldrei á sig mynd baráttu. Mikilleiki hafs og
manns jafna að lokum með sér metin, þenslan á milli fær þá úrlausn sem
er hinn djúpi sannleikur í eilífðarstríði manns og náttúru: Með engu
öðru móti fengi hann lifað af.
Gunnlaugur Scheving: Fiskibátur, 1958. Olía. 160 x 209. Eigandi Lista-
safn Islands.
Málverk þetta eftir Gunnlaug Scheving sýnir eitt tilbrigði í hinum
stóru sjávarmyndum hans, nótt á sjónum. I henni ríkir mikil dulúð, í
beitingu heitrar birtunnar sem fellur af ljóskeri á mennina tvo, andstætt
rísandi dagsbrúninni yfir sjónum, en þó ekki síður í sjálfri skipun
verksins. Mennirnir tveir mynda gleiðan en háan þríhyrning milli sín,
skálínan upp eftir manninum til hægri skerst upp í höfuð hins, þannig að
athöfn þeirra verður stórt og lokað meginstef í myndinni. Línurnar sem
þennan þríhyrning mynda eru víða ítrekaðar, í ljósum reykháfnum, í
flugi efra fuglsins, í ljósgulu fleygunum tveim milli mannanna. Með því
að byrgja fyrir okkur sjálfa ljósuppsprettuna getur hann dregið öll form
mannanna ákveðnum útlínum, lýstar innan frá, og gefur þannig í skyn
þessa þögulu athöfn, sem jaðrar við launhelgar í slíkum næturmyndum.
Scheving gerir hér ekki fremur en endranær neina tilraun til útlist-
unar. Það er hið dularfulla andrúm, stærð mannanna í þessari þröngu
veröld bátsins andstætt víðernum hafs og himins, sem eitt fyrir honum
vakir. Og í því koma hinar miklu andstæður litanna til sögu. Innan borðs