Skírnir - 01.04.1996, Page 229
SKÍRNIR
ÆXLUN MYNDA
223
Zombí, hvað er núþað ?15
Fyrirbærið Zombí er dæmigert fyrir „hvítar goðsögur"16 og missáningu
mynda. Það á sér uppruna í frásögnum hvítra manna af vúdú-trúar-
brögðum á Haiti, en í vestrænni menningu er það farið að tákna meðvit-
undarleysi fólks af afrískum uppruna og sýnir það þá sem sálarlausa
líkama eða dýr. Á Haiti og fleiri eyjum karabíska hafsins er vúdú-trú
blanda af franskri kaþólskri trú og trúarbrögðum frá vesturströnd Afr-
íku enda til orðin meðal þræla sem þaðan voru fluttir til eyjanna á 17. og
18. öld. Margir hvítir höfundar telja að vúdú á Haiti sé tvíþætt: annars
vegar trúarbrögð (eiginleg vúdú) og hins vegar kukl sem er jafnvel talið
fela í sér mannfórnir og mannát (sjá t.d. Williams, s. 73 og Bastien, s. 39).
Enginn veit nákvæmlega hvað Zombí er, en orðið kom fyrst fram í
bók hvíta ferðalangsins Williams Searbrook um Haiti, The Magic Island
(1929, s. 281) og varð þegar að minni í goðsögum um landið og menn-
ingu þess (Lawless, s. 23). Mynd hvíta mannsins af Zombí er þar strax
tengd mannfórnum og galdra-athöfnum í vúdú-trú, en samt ávallt
þannig að ferðalangurinn fær ekkert að sjá, og telur jafnvel að sér hafi
verið byrlað eitur á meðan vúdú-presturinn, Papaloi, ásamt hópnum
fórnaði manni og vakti annan upp (Loederer, Metrieux, Lawless). Frá-
sagnir af „raunverulegum“ atburðum eru því ekki til, heldur eru þær
ævinlega sprottnar úr öðrum frásögnum, hugarflugi eða dylgjum. I einni
þeirra rannsókna sem orðið hafa vinsælar en mjög umdeildar meðal
fræðimanna er þannig aðeins að finna tvö dæmi um „raunverulega"
Zombía í allri sögu samfélagsins (sjá Lawless, s. 24-26).
Samkvæmt sumum sögum refsar samfélagið fólki fyrir tiltekin afbrot
með því að gera það að Zombí eftir dauðann. Er viðkomandi þá vakinn
upp frá dauðum og gerður að lifandi líki sem aðrir geta látið vinna fyrir
sig. Uppvakninguna annast vúdú-prestar og lýkur henni með algerum
aðskilnaði sálar og líkama svo að uppvakningurinn, Zombúnn, hvorki
sér né talar, og hreyfingar hans minna á svefngengil. Kynþáttafordómar
hvítra birtast skýrt í því að sumar þessara sagna gefa þá mynd að flestir
15 Form spurningarinnar vísar óbeint til þeirra flóknu vensla Zombís að vera
saga um sögu, líkt og t.d. íslendingasögur, sem og til þeirra ólíku hugmynda
sem menn hafa um rætur sagnanna í veruleikanum. Vísunin hér er komin frá
Helgu Kress í gegnum Ástráð Eysteinsson (1990, bls. 171, 186n), en í umræð-
um eftir fyrirlestur sinn um Tímaþjófinn svaraði Helga fyrirspurn þannig:
„Gunnar á Hlíðarenda. Hver er nú það?“
16 „Hvítar goðsögur“ er hugtak frá Derrida sem ræðir það náið í grein sinni
„White mythologies" (1982). Þetta hugtak vísar ekki síst til þess hvernig Evr-
ópumenn hafa á síðari öldum leitast við að hreinsa goðsögur og reyndar alla
fyrri sögu sína, og vegsamað hvíta litinn sem þeir tengja sannleika í anda
frummyndanna.