Skírnir - 01.09.2000, Page 25
SKÍRNIR
ESTETÍKUS
261
Estetíkus: Flýttu þér nú hægt, vinur minn, allt hefur sinn tíma.
Eg hjó eftir svolitlu sem þú sagðir áðan. Þú hélst því fram að ekki
væri hægt að beita skynsamlegum rökum til að skera úr um ágæti
liststaðla. Skil ég þig rétt ef ég segi að þú teljir val milli liststaðla
hreint vildarefni eða smekksatriði og ekkert annað?
Empiríkus: Eins og talað út úr mínu hjarta.
Estetíkus: Telur þú skynsamlegt að telja listdóma dóma um
skynjanlegar eigindir listaverka og ekkert annað?12
Empiríkus: Mér virðist þetta vitleg skoðun, svona í fljótu
bragði.
Estetíkus: Það er sem sagt hvorki smekksatriði né vildarefni að
telja að svo sé eða andæfa skoðuninni?
Empiríkus: Nei, alls ekki.
Estetíkus: Gott og vel. En hvernig sannreynum við staðhæfing-
ar um að listaverk sé frumlegt?
Empiríkus: Tja, með því að líta á listasöguna, athuga hvort
verkið sé hið fyrsta sinnar tegundar eður ei.
Estetíkus: Sá eiginleiki að vera fyrstur sinnar tegundar er ekki
meðal skynjanlegra eiginleika verksins, eða hvað?
Empiríkus: Vissulega ekki, ég get hlustað á öll blæbrigði tón-
verks til dauðadags án þess að skynja hvort verkið sé frumlegt eða
kannski stæling á öðru tónverki.
Estetíkus: Get ég þá bæði trúað því að listdómur geti ekki ver-
ið neitt annað en dómur um skynjanlega eiginleika verksins og að
dómur um frumleika verks sé eiginlegur listdómur?
Empiríkus: Nei, það geturðu trautt.
Estetíkus: Varstu ekki að segja mér áðan að það væri vildarefni
eða smekksatriði hvort við veldum eða höfnuðum stöðlum á borð
við frumleikastaðalinn?
Empiríkus: Já, og það eina sem þú hefur sannað er að ekki sé
öruggt að frumleikastaðallinn sé listgæðastaðall.
Estetíkus: En hvað nú ef skynkenningin, þ.e. kenningin um að
listdómar séu dómar um skynjanlegar eigindir verka, reynist
röng? Hún hefur verið gagnrýnd harkalega, sumir segja að lista-
verk þiggi sitt „ídentitet“ út frá tengslum sínum við önnur verk,
séu ekkert án þeirra tengsla. Tengslin sem slík eru ekki skynjan-