Skírnir - 01.09.2000, Page 29
SKÍRNIR
ESTETÍKUS
265
o.s.frv. Þessar forskriftir eru ekki bara meðal forsendna skynsam-
legrar hugsunar, heldur eru þær sjálfar skynsamlegar. Við höfum
þegar rökstutt hvers vegna rétt sé að forðast augljós og innihalds-
laus sannindi, og sá rökstuðningur kann að vera rangur, er sem sagt
fallvaltur. Því eru til vel rökstuddar, fallvaltar forskriftir sem eru við
hæfi og ekki inntaksrýrar. Sem dæmi um forskrift sem vart er við
hæfi í neinu hugsanlegu samhengi getum við nefnt „klappa ber sam-
an höndum ævinlega þegar rignir klukkan fimm“. Hún er alltént út
í hött sem siðferðileg forskrift. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að
slíkt hið sama gildi um fagurfræðilegar forskriftir, sumar eru sjálf-
sagt skynsamlegri en aðrar. Hugsaðu bara um forskriftina „lag á að
lýsa landslagi"; sú forskrift virðist fáránleg.
Empiríkus: „Ekkert því til fyrirstöðu", þú ert enn við sama
heygarðshornið. Komdu nú með rök fyrir því að til séu rökstyðjan-
legar og fallvaltar fagurfræðilegar forskriftir!
Estetikus: Ekkert sjálfsagðara! Ef þú segir „mönnum á að finn-
ast Móna Lísa gott listaverk" er eðlilegt að spyrja „af hverju?"
Svarið ætti að vera eitthvað á borð við „vegna þess að það er frum-
legt, vel unnið o.s.frv." Getir þú ekki rökstutt forskriftina hef ég
engan möguleika á að taka afstöðu til þess hvort forskrift þín sé
raunverulega fagurfræðileg eða kannski öldungis siðferðileg eða
pólitísk. Þannig er mögulegur rökstuðningur rökleg forsenda þess
að forskrift geti talist fagurfræðileg. Athugaðu að ég get sett
spurningarmerki við svarið, er frumleiki t.d. raunveruleg listgæði?
Þannig er slíkur „forskriftar-dómur“ fallvaltur í ofanálag.
Empiríkus: Þetta er allt gott og blessað, Estetíkus minn. En ég
hef enn ekki séð sönnun fyrir listdómi hjá þér.
Estetíkus: Empiríkus, eru kenningar raunvísindanna skynsam-
legar?
Empiríkus: Ja, þær bestu; skóladæmi um raunvísindalega kenn-
ingu eru skynsamlegar kenningar.
Estetíkus: Geturðu sannað þær með öruggri vissu?
Empiríkus: Nei, það getum við ekki, það er röklega útilokað ef
trúa má Karli Popper.
Estetíkus: Gott og vel, en af hverju skyldum við gera þá kröfu
til listdóma að hægt sé að sanna þá með öruggri vissu?