Skírnir - 01.09.2000, Page 30
266
STEFÁN SNÆVARR
SKÍRNIR
Empiríkus (fát kemur á hann ): Tja... tja, ne... i, nei, svei mér,
nei!
Estetíkus: Ertu sammála Popper um að kennimark skynsam-
legra kenninga sé fallveltið ?18
Empiríkus: Jú, kenning sem aldrei getur verið röng er heldur
ekki prófanleg. Og vísindin hafa ekkert við óprófanlegar kenning-
ar að gera.
Estetíkus: Gott að heyra, en var ég ekki einmitt að tíunda ýmis
dæmi um að listdómar gætu verið fallvaltir?
Empiríkus (niðurlútur); Ég verð víst að játa að svo er.
Estetíkus: Ertu líka sammála því að kenning, sem ekki er hægt
að rökstyðja, geti ekki verið skynsamleg?
Empiríkus: Hjartanlega sammála!
Estetíkus: En var ég ekki að nefna ýmis dæmi um að listdóma
megi rökstyðja?
Empiríkus (lifnar við): Já, vissulega, en þú hefur ekki sýnt fram
á að rökstyðjanlegir listdómar séu nokkuð annað en undantekn-
ing frá reglunni! Þú verður að sýna fram á að skóladæmi um list-
dóm sé dómur sem er rökstyðjanlegur og fallvaltur, annars tek ég
ekki rök þín alvarlega.
Estetíkus: Empiríkus, getum við hugsað okkur listdóm sem er
þeirrar náttúru að hugtökum á borð við „list“ eða „listdómur" sé
ekki beitt í honum, beint eða óbeint?
Empiríkus: Að sjálfsögðu ekki, slíkur dómur væri ekki list-
dómur.
Estetíkus: Getur þú samþykkt að það að beita hugtaki sé að
setja fram tilgátu? Þjóðir sem hafa annað hugtakakerfi um liti en
við kalla það sem við köllum „rautt“ „undirdeild í gulu“, setja
fram þá tilgátu að veröld litanna sé þannig. Samþykkirðu þetta?
Empiríkus: Svo sannarlega!
Estetíkus: Eru ekki allar kenningar um hvað list og listdómar
séu fagurfræðilegar kenningar?
Empiríkus: Laukrétt.
Estetíkus: Þá samþykkjum við fagurfræðilega kenningu í reynd
í hvert sinn sem við setjum fram listdóm, kenningu um hvað list
og listdómar séu, eða hvað?