Skírnir - 01.09.2000, Page 37
GARÐAR BALDVINSSON
Þegn, líkami, kyn
Franski sautjándu aldar heimspekingurinn René Descartes lagði
að mörgu leyti grunn að hugmyndum okkar um vitundina og
ólíka þætti hennar.1 Arið 1641 gaf hann út tímamótaverk um
frumspeki, Hugleiðingar, og gekk þar út frá aðgreiningu sálar og
líkama. I bókinni telur hann að hrein hugsun í vitundinni sé hið
eina sem getur útilokað þær þrjár meginvillur sem gert geta hug-
mynd ógilda, en þær eru efi, mótsögn og óvissa. Þessi atriði eru öll
til umræðu í ýmsum verkum íslenskra bókmennta sem út komu á
þriðja áratugnum og verður hér á eftir rætt um þrjú þeirra í tengsl-
um við hugmyndir Descartes. Verkin eru Sxlir eru einfaldir (1920)
eftir Gunnar Gunnarsson, Bréf til Láru (1924) eftir Þórberg Þórð-
arson og Vefarinn mikli frá Kasmír (1927) eftir Halldór Kiljan
Laxness. Öll þessi verk eru á undarlegum mótum varðandi vit-
undina, þau taka að nokkru mið af tvíhyggju og skynsemishugtaki
Descartes en einnig af gagnrýni manna eins og Friedrichs
Nietzsche og Sigmunds Freud á hugmyndaheim Descartes, og af
aukinni áherslu þeirra á líkamann. Mætti jafnvel segja að söguhetj-
urnar í verkum Halldórs og Gunnars langi að brjótast úr viðjum
tvíhyggjunnar en séu fastar í keðju og mynstri frásagnarinnar sem
knýr verkin áfram og komist ekki út fyrir þau mörk sem tvíhyggj-
an setji bæði vitund og frásögn, en að það sé aðeins í verki Þór-
bergs sem losni um mörkin, einkum með beitingu ímyndun-
araflsins. Og það er einnig aðeins í verki Þórbergs sem vegið er að
hlutverkum og gildum kynjanna eða jafnvel sjálfu kynferðinu,
ekki síst þegar karlpersóna textans þungast í líkamlegum skilningi
um leið og skáldleg frjósemi hennar magnast.
1 Ég þakka Vísindasjóði Rannsóknarráðs íslands styrk sem mér var veittur til að
vinna þessa ritgerð. Sigurjón B. Hafsteinsson mannfræðingur, svo og ónafn-
greindur yfirlesari og ritstjórar Skírnis lásu textann yfir og gáfu gagnlegar ábend-
ingar sem ég þakka þeim fyrir.
Skírnir, 174. ár (haust 2000)