Skírnir - 01.09.2000, Page 40
276
GARÐAR BALDVINSSON
SKÍRNIR
fræðilegur hornsteinn sem þarf að brjóta til að kollvarpa þannig
grundvelli hugmynda okkar um þegninn og vensl hans við sjálfan
sig, aðra og heiminn. A okkar tímum er það ekki síst áherslan á
vitundina og fullvissu hennar sem orðið hefur skotspónn gagn-
rýnenda - sem flestir vilja endurreisa líkamann sem gangvirki lífs-
ins.
Við nánari athugun var Descartes þó kannski bara í sakleysi
sínu við arineldinn heima hjá sér, gott ef ekki hálfháttaður, að velta
því fyrir sér hvað það væri sem mannlegri vitund reyndist erfiðast
að draga í efa. Getur maður - og hér skiptir „maður“ öllu - efast
um drauma, um hugsýnir, um ímyndunaraflið, um skynjun skyn-
færanna? Um líkamann? Get ég efast um liti, um landið og lag
þess, um aðrar verur; get ég efast um að hönd mín sé hönd mín. I
stuttu máli svaraði Descartes því til að efast megi um allt nema eitt
- og hér birtist snilli hins mikla hugsuðar: það eina sem maðurinn
getur ekki efast um er hugsunin, þetta sem efast, cogito, það að
hugsa, aflið sem getur leitt fram eina hugsun af annarri eftir lög-
málum sem gera það kleift að draga ályktanir sem aftur má dæma
sannar og ósannar („Fyrsta hugleiðing“ og Lögmál heimspekinnar
I, §vii og ix).8
Cogito er Descartes að vissu leyti hliðstæða vélar: þrátt fyrir
margbreytileika sinn er hugsunin hlutlæg og sem slík fullkomin á
sama hátt og vél, en þess háttar vél er aftur dæmi um fullkomnun
framleiðanda síns (Lögmál heimspekinnar I, §xvii).9 Þessi hugsun-
arvél Descartes er tvöföld sönnun fyrir tilveru Guðs. Vélin sýnir í
fyrsta lagi að til sé æðri máttur er kveikt geti á slíkri vél en er um
leið til á undan öllu því sem tengist líkamanum, enda þarfnast ef-
inn alls ekki líkama (Lögmál heimspekinnar I, §viii). I öðru lagi er
vélin ábending um æðri fullkomnun og það eitt að Descartes geti
8 í rit Descartes, Hngleiðingar og Lögmál heimspekinnar, er vitnað eftir enskri
þýðingu Johns Veitch: Meditations and Selections from the Principles of
Philosophy. Descartes 1596-1650. Open Court Publishing Company. La Salle og
Illinois. 1962. Þó skal bent á að „Fyrsta hugleiðing" hefur komið út í íslenskri
þýðingu Þorsteins Gylfasonar íMichel Foucault o.fl. 1998.
9 Reyndar talar Descartes einnig um líkamann sem vél og bein, taugar, vöðva,
æðar, blóð og húð sem hluta hennar (Fimmta hugleiðing, bls. 98). Vélin sú er líka
vísbending um tilveru Guðs.