Skírnir - 01.09.2000, Side 47
SKÍRNIR
ÞEGN, LÍKAMI, KYN
283
Descartes meinti, þ.e. hrein hugsun. Vitundin hjá Nietzsche er
þannig eðlisólík cogito án líkama hjá Descartes, margflókið ferli
sem felur m.a. í sér líkama, vilja og sál en einnig hreina hugsun,
þegn sem hugsar um heiminn og viðfang sem þegn beitir sinni
hreinu hugsun en auk þess blönduð heiminum sem er fyrir utan
þegninn og hina hreinu hugsun. Varla er hægt að hugsa sér ólíkari
hugsanir um sama fyrirbærið.
Nietzsche ræðst gegn hinu frumspekilega sannleikshugtaki og
hinni kartesísku þrá eftir fullvissu og varpar um leið fyrir róða
þeirri hugmynd Descartes að ég-ið hafi einhverja æðri veru að
kjölfestu og leiðir okkur þess í stað að fjölskrúðugri mynd
mannsins og þegnskapar hans. I Sifjafrœði siðferðisins dregur
Nietzsche upp mynd af þrælasiðferði kristninnar sem göfgar
hvatir í hugtök (breytir líkama í hugsun) svo að allt tal verður
tvöfalt í roðinu og þar með hafnar hann hugsunarvél Descartes
(cogz’ío-inu) sem grunni þegnsins. Af þessum sökum er honum
nauðsynlegt að leggja drög að dulvitundinni sem knýr hann til að
benda á að þegninn sé ekki afurð einnar æðri veru heldur miðli
kröftum sem honum eru óvitaðir. Þegar Nietzsche ritar um inn-
blástur gerir hann þegninn að þega, eða jafnvel hljóðfæri eins og
Þórbergur gerir, en dregur hann um leið textalegum dráttum:
„varla er hægt að hafna algerlega þeirri hugmynd að maður sé
einungis holdgervingur, einungis málpípa, einungis miðill vold-
ugri afla“ sem ljósta mann sem elding og gera mann „gersamlega
utan við sig“.18
Andstætt hugmynd Descartes um Guð sem kjölfestu, og að
þegninn sé þar með hafinn yfir bæði menningar- og sögulegar
jafnt sem ytri aðstæður, sýnir Nietzsche fram á það í Sifjafræði
siðferðisins að siðferði og samviska, og jafnvel sjálf vitundin, séu
sögulega skilgreind: að þegninn sé afsprengi menningar-, samfé-
lags- og textalegra afla á tiltekinni stund sögunnar. Tryggingin
sem maðurinn hefur í kartesískri orðræðu, vegna þess að hann er
sköpunarverk Guðs, gerir heild hans stöðuga og að lokum eilífa
18 Ecce HomOy bls. 300. „Eldingin“ er Nietzsche handgengið myndmál fyrir dul-
vituð öfl jafnt sem fyrir ofurmennib eins og sjá má t.d. í Sifjafrœði siðferðisins,
bls. 45, og Svo mælti Zaraþústra.