Skírnir - 01.09.2000, Page 54
290
GARÐAR BALDVINSSON
SKÍRNIR
laust orkuflæði. Þegar Nietzsche ímyndar sér skynjun sína fara
inn í ,,„innyfli“ sérhverrar sálar“ þá Ijær hann henni „sálfræðilega
fálmara" (Ecce Homo, bls. 233) svo að hugurinn verður í senn
einkar frumstæður og karnivalískur. I stað aðgreiningar líkama og
sálar hjá Descartes eru þau óaðskiljanleg í þessari mynd
Nietzsches. I heimsmynd Descartes er líkaminn byrði og það eina
sem hindrar heildstæðni hugsunarinnar og tengslin við Guð. I
öðru samhengi telur Nietzsche þvert á móti að sálin hafi verið
„fundin upp ... til að eyðileggja líkamann" (Ecce Homo, bls. 332)
og snýr þannig við þeim fjandskap sem innbyggður er í kartesíska
þekkingu, sem og kristna, þar sem líkaminn, og ekki síst tilhneig-
ing hans til að láta undan freistingum tilfinninga og hvata, boðar
tortímingu sálarinnar. Þessi afbygging Nietzsches á (kristilegu)
siðferði í Sifjafræði siðferðisins (sem og í öllu hans höfundar-
verki)30 kallast raunar skemmtilega á við þá hugmynd Foucaults í
Ögun og refsingu að í kristinni hugmyndafræði sé sálin „fangelsi
líkamans" (bls. 30), en kartesískt er að telja líkamann halda mann-
inum frá Guði, eins og áður sagði.
I neðanmálsgrein við ritgerð sína „Sjálfið og frumsjálfið"
(Freud 1984:362) kveður Freud sig standa í þakkarskuld við
Nietzsche fyrir að hafa bent á frumsjálfið, sem á þýsku kallast
„das Es“.31 Að mati Nietzsches stendur frumsjálfið fyrir þann þátt
mannlegs þegns sem tengir hann við náttúruna með frumstæðari
hætti en Descartes var fært að ræða: ef ekki sem jafningja þá að
minnsta kosti hliðstæðu dýrseðlisins, eða eins og Freud orðaði
það: „fyrir hvaðeina í eðli okkar sem er ópersónulegt og ofurselt
30 í þessari grein er litið fram hjá hinu vandmeðfarna verki, Viljanum til valds, af
tveimur meginástæðum: annars vegar gengur margt í verkinu gegn ýmsum mik-
ilvægum þáttum sem koma fram annars staðar í höfundarverki Nietzsches og
hins vegar er útgáfa verksins að einhverju leyti höfundarverk systur hans, Eliza-
beth Förster, sem ritstýrði fyrstu útgáfum þess og afbakaði það á margan hátt en
ekki hafa öll gögn fundist sem staðfest geta hvar hönd hennar greip fram fyrir
hönd Nietzsches þegar hann sat í myrkri geðveiki sinnar á heimili hennar.
31 Á þýsku notar Freud orð sem t.d. Nietzsche hafði notað í svipuðum tilgangi,
þ.e. „das Es“, sem á íslensku gæti orðið „það-ið“. Um önnur helstu hugtök
þessa líkans notar hann álíka einföld orð: „das úber-Ich“ og „das Ich“. Þessi
þjálu hugtök voru þvæld í enskum þýðingum, eins og lesa má um í neðanmáls-
greinum ensks þýðanda, sjá Freud 1984:345 og 362.