Skírnir - 01.09.2000, Page 79
SKÍRNIR
STRÁKLIGR LÍZ MÉR SKÍÐI
315
rækilega um Wittenwiler, segir og að menn skyldu ekki gleyma
því að kappar kvæðisins séu aðeins grímur og bætir við: „Es ist
‘eritag’ Dienstag, letzte Entfesselung der animalischen Tollheit"
(1978:173-74). Sameiginlegt er og með Skíðarímu, Ring og Panta-
grúl að þar er lýst gervibrúðkaupi (Pantagrúll 1993:525).
I Valhöll kemur skyndikross Skíða öllum illindum af stað. Sá
bardagi sem af hlýst er skopfærsla á venjubundnum orrustulýs-
ingum í fornaldar- og riddarasögum. Vígaferli eru nokkur en mest
um pústra, högg og limlestingar, svipað og í Pantagrúl (Bakhtin
1984:207). Hins vegar er ekki gert gys að veröld ása eða lifnaði;
heimur þeirra er hvorki dreginn sundur í háði né hafinn upp í
platónskt veldi, eins og vart verður við í málverkum meistara frá
endurreisnartímanum.7 Aðeins er vikið glettnislega að því að
frægustu kapparnir ráði ekki við vesælan göngumann. Óðinn
birtist áheyrandanum reyndar eins og góðviljaður íslenskur stór-
bóndi - og kona hans er Freyja, eins og fram kemur í Sörla þætti.
Og það er eftirtektarvert að sá eini sem leggur Skíða lið er Geir-
mundur heljarskinn, landnámsmaður á Ströndum og síðar Skarð-
strönd, sjálfur ættfaðir Skarðverja.
Augljóst er, eins og Guðbrandur Vigfússon og Björn Karel
Þórólfsson bentu á, að Skíðaríma tengist erlendum bókmenntum.
Bein tengsl við Ring Wittenwilers eða Pantagrúl Rabelais eru þó
ekki sjáanleg. Höfundur Skíðarímu hefur samt unnið í svipaðri
hefð og Wittenwiler, tekið upp minni úr föstuleikjum sem draga
fram fífl og álappalega aula sem og alls konar fígúrur. Uggvænleg-
ar grýlur eða fælur af því tagi áttu þó ekki einungis að vekja hlát-
ur með áheyrendum heldur minna um leið á trúarlegt inntak föst-
unnar; fælurnar voru áminning um hina gömlu hugmynd
Ágústínusar kirkjuföður um guðs ríki og djöfuls, civitas Diaboli
og civitas Dei (Moser 169-171).
Allt aftur til 16. aldar er og sá siður rakinn að kjósa konung
föstuleiksins. Moser (1986:172) nefnir meira að segja dæmi um að
árið 1529 hafi verið kjörinn föstukonungur í Gent og hét hann
7 Ólafur Gíslason listfræðingur var svo vinsamlegur að athuga þetta fyrir mig og
kann ég honum þökk fyrir.