Skírnir - 01.09.2000, Page 80
316
SVERRIR TÓMASSON
SKÍRNIR
Nebukadnezar. Það er engin tilviljun að honum var gefið þetta
nafn því að það beindi huga áheyrenda að Babylon, borg fíflanna,
þeirra sem fylgdu fýsnum sínum. Andstæða þeirrar borgar var
Jerúsalem, borg kærleikans í huga trúaðra manna.
I Skíðarímu beinist skopið umfram allt að Skíða sjálfum. Hann
er hið íslenska/í/Z, enda kallaður strákur og athæfi hans er stráks-
legt. Hann lætur og undan fýsnum sínum, etur og drekkur og
heldur að hann geti fastnað sér konu. Og Skíði fær líka kóngsnafn
eins og fígúra úr föstuleikjum, veldi hans er í Indíalöndum sem
voru naumast langt frá Babylon í landafræði miðaldamanna. Tákn
fíflsins, staf (Narrenstab), hefur Skíði einnig í hendi, eins og er-
lendir starfsbræður hans (Moser 1986:176).
Vafalítið hafa íslenskir áheyrendur litið á Valhöll og veröld
framliðinna kappa sem eins konar víti þar sem blót væru enn við-
höfð, heimur ása var civitas Diaboli. Og sökum þess að Skíði
hafði samgang við þessa veröld verður hann aldrei heill meina
sinna nema hann fasti upp á vatn og brauð hvern laugardag fyrir
páska:
Aldri trúig örmum þrjót
mun illra meina batna,
fyrr en lofar að leggja af blót
og laugar-nætr að vatna. (201)
I Skíðarímu er dregin upp mynd tveggja heima, heiðins og
kristins, með hefðbundnum ærslum föstuleikjanna. Hún hefur
sennilega verið flutt fyrir öndverðu í föstuígang; leikur höfundar-
ins með matinn, smjörið og fiskinn eru og vísbending um þann
tíma. Með því að velja leiðsluformið komst trúarlegt inntak föstu-
leiksins til skila; og leiknum með nokkrum tilbrigðum var valinn
staður innan rímu. Það frásagnarform þekktu íslenskir áheyrend-
ur og gátu sviðsett með litlum tilbúnaði. Rímuna mátti að sjálf-
sögðu kveða, en vel má hugsa sér að samtöl hennar hafi verið flutt
af einum eða fleiri kvæðamönnum. Upphafið hafi þjónað sem
prologus fremur en hefðbundinn mansöngur og lokin sem epi-
logus, þar sem sögumaðurinn steig fram og lýsti sannindamerkj-
unum - þeim sem Jón lærði lagði mestan trúnað á og var ætlað að
blekkja alla áheyrendur.