Skírnir - 01.09.2000, Page 81
SKÍRNIR
STRÁKLIGR LÍZ MÉR SKÍÐI
317
4
Engar heimildir eru til um íslenska föstuleiki; hvergi hafa fundist
grímur sem kynnu að hafa verið notaðar við slíkan stráksskap.
Orðin grýla og skinngrýla gætu þó vísað til þess að leikaraskapur
af þessu tagi hafi þekkst (Terry Gunnell 1995:162-63). Oft hefur
verið bent á að forsendur fyrir iðkun leiklistar hafi skort á Islandi,
engin hafi verið þorpin og regluleg markaðstorg óþekkt. Eg hygg
að of mikið hafi verið gert úr þessu; þéttbýli var reyndar til því að
oft var fjölmennt í verbúðum, á stórbýlum og klaustrum. Þar voru
því ákjósanleg skilyrði fyrir bæði veraldlega og andlega leiki og
leikrænan flutning. Skíðaríma virðist vera sprottin upp í slíku um-
hverfi. Baksvið hennar gefur tilefni til að álykta að hún hafi átt að
skírskota til ákveðinna stórbænda á Vesturlandi. Guðbrandur
Vigfússon (1883:397) gat sér þess til að lítil frásögn í Sturlu sögu,
þar sem segir frá sumrungi einum sem fer á milli Sturlu í Hvammi
og Þorleifs beiskalda, líklega um 1181, væri tilefni hennar. Ríman
bætir reyndar Þorgilsi Oddasyni við, en hann deyr 1151. Vel má
vera að frásaga Sturlu sögu sé kveikjan að rímunni, en hún fer
frjálslega með sögulegar staðreyndir enda lýsir hún betur þjóðfé-
lagsháttum á 15. og 16. öld, þegar ætla má að hún hafi oftast ver-
ið flutt. Nöfn þessara fornu höfðingja gætu verið tákn fyrir þá
stórbændur sem bjuggu á þessum höfuðbólum á tímum höfund-
ar. Hann hefur og gert ráð fyrir allmikilli þekkingu áheyrenda á
fornaldarköppum, því að í kappatalinu eru margar vísanir í forn
rit, eins og t.d. Snorra Eddu og Mágus sögu jarls. Líklegt er einnig,
eins og Sigurður Nordal gat sér til og Jón Þorkelsson tók undir,
að orðið skreppuskrúði sé fengið úr Sneglu-Halla þætti í yngri
hluta Flateyjarbókar, en að hyggju fræðimanna hefur hún verið í
eigu sonar Björns Þorleifssonar (d. 1467) á Skarði á Skarðsströnd,
Þorleifs hirðstjóra (d. 1487) á Reykhólum (Jón Þorkelsson 1922-
1927:177). I þessu samhengi skiptir ekki máli hvort Flateyjarbók
hefur verið lengur eða skemur á Reykhólum eða Skarði á 15. öld.
Það er og alls ekki ólíklegt að Jón lærði hafi ruglast á Birni Jórsala-
fara og Birni Þorleifssyni eldra, eins og Jón Ólafsson úr Grunna-
vík gerir í bókmenntasögu sinni (Add fol 3:38v). Þess má og geta
að ein höndin á Lækningabókinni í Dyflinni líkist töluvert einni