Skírnir - 01.09.2000, Page 109
SKÍRNIR
NÚ ER HÉR KOMINN EGILL ...
345
VII.
Egilssaga er baráttusaga um skylduna, réttinn, jafnræðið, hrein-
lyndið, drengskapinn - og snilldina. Hún lýsir margföldum sam-
stæðum og andstæðum ólíkra eðlisþátta, og reyndar einnig þroska
sem verður m.a. við ýmis óvænt umskipti á ævinni, svo sem við
fall Þórólfs, Jórvíkurför, dauða sonanna, elli Egils, og fleiri sam-
bærileg dæmi mætti nefna. Við þessi umskipti og jafnhliða áhrif-
um þeirra birtist sterkur persónuleiki og myndugleiki söguhetj-
unnar Egils sem í senn er óbreyttur með innri andstæðum sínum
og spennu og tekur þó mikilvægri þróun í sögunni allt til loka.
Þessi umskipti og afleiðingar þeirra, persónulega og samfélagslega,
eru mjög mikilvægur þáttur í sögunni þótt í þessari ritsmíð hafi at-
hygli fremur beinst að öðru. Sagan er sögð af óviðjafnanlegri
kýmni, tvísæi og umburðarlyndum mannskilningi ásamt táknvísi
og íhaldssamri þjóðfélagslegri alvöru. Sú hlið Egilssögu sem veit
að stjórnmálasögunni er verkefni út af fyrir sig og hafa margir
fræðimenn vikið að því, eins og hér hefur verið nefnt fyrr á þess-
um blöðum.
Þvert á móti því sem ýmsir hafa fullyrt var Egill Skalla-Gríms-
son ekki siðlaus lukkuriddari eða ælandi fyllibytta eða blóðþyrst-
ur raðmorðingi.86 Við athugun kemur í ljós að Egill sögunnar er
ekki brosleg persóna, heldur eru ýmsar lýsingar í sögunni glettn-
isfullar og hæðnislegar. Á þessu tvennu er mikilvægur munur sem
snertir kjarnann í snilldartökum söguhöfundarins. Upp úr frá-
sögnum sem meðal annars eru kýmilegar og lýsingum sem sumar
eru tvísæilegar rís þessi stórbrotni einstaklingur og skáldmæring-
ur með sterkustu þættina í skaplyndi sínu. Og þeir voru alls ekki
frekja og villimennska, fégirni og ruddaskapur - heldur umfram
allt drengskapur og réttlætiskennd í grimmum og stundum villt-
um aðstæðum, ásamt einlægni og tilfinningahita - og skáldsnilld.
Egilssaga er baráttusaga og saga um vináttuna og tryggðina.
Hún er líka saga um ævilanga leit, um heilagt Graal sem sést í hill-
86 Orðalag hér vísar til dóma sem fræðimenn hafa fellt yfir Agli. Sjá Halldór
Laxness 1945 (útg. 1962): 32, Ólaf Briem 1972: 32, Jónas Kristjánsson 1978:
319-20, Véstein Olason 1993: 91-92 og Véstein Ólason 1998: 83.