Skírnir - 01.09.2000, Page 127
SKÍRNIR UM RÚNIR í NORRÆNUM FORNBÓKMENNTUM 363
stundum voru áletranir litaðar. Er þetta nefnt víða í fornritum, s.s.
í Hávamálum, þar sem fram kemur að rúnir hafa verið málaðar
með rauðum lit. Svo var vitaskuld gert þegar framinn var galdur
og rúnirnar litaðar með blóði, eins og í 44. kafla Egils sögu í frá-
sögninni um veisluna sem nefnd var hér að framan. I 79. kafla
Grettis sögu er sagt frá gamalli konu, Þuríði, sem ristir rúnir á rót-
artré og rjóðar í blóði sínu og hyggst þannig draga Gretti til dauða
með fjölkynngi.48 I öðrum tilfellum, eins og t.d. í 22. vísu Guð-
rúnarkviðu annarrar, er einfaldlega nefnt að rúnirnar hafi verið
„roðnar“:49
Vóro í horni
hvers kyns stafir
ristnir ok roðnir
Þessar rúnir voru augljóslega ristar í þeim tilgangi að auka áhrif
óminnisveigarinnar sem Guðrúnu hafði verið færð.50 Eru sterkar
líkur á því að blóð hafi verið notað til að rjóða stafina, en einnig
mætti setja fram aðrar tilgátur til að skýra hvernig þessar örlaga-
ríku rúnir höfðu verið litaðar.51 Hvað sem um þetta síðastnefnda
atriði má segja er vert að hyggja að því að sögnin „að rjóða“, sem
skáldið notar hér í lýsingarhætti þátíðar í karlkyni (roðnir), er að
finna í sama hætti (fornsænska: „ruðnir") í áletrun á öðrum af
tveimur steinum sem nú standa fyrir framan Överselö-kirkju í
Södermanland í Svíþjóð (5. mynd). Skyldleikinn á milli textanna
tveggja verður jafnvel meira sláandi þegar þess er gætt að áletrun-
48 Sama útg. Grettis sögu, bls. 249-50.
49 Sama útg. eddukvæða, bls. 228.
50 Það er athyglisvert að höfundur Guðrúnarkviðu notar forsetninguna „í“, en í
kvæðinu í Egils sögu sem áður var nefnt segir „Rístum rún á horni'. Það virð-
ist því mögulegt að skáldið hafi viljað tilgreina það sérstaklega að galdrarúnirn-
ar hafi verið ristar á hornið innanvert, svo að drykkurinn kæmist í beina snert-
ingu við rúnirnar.
51 Hér er vert að benda á að höfundur Völsunga sögu, sem tekur upp efni fornra
hetjukvæða, getur þess sérstaklega að stafir voru „rodner med blode“ (34. kafli,
útgáfa Magnus Olsen, V<}lsunga saga ok Ragnars saga loðbrókar, Kaupmanna-
höfn, Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, XXXVI, 1906-1908,
bls. 87). Varðandi þetta efni skal enn vísað í óútgefið verk höfundar, Les runes
dans la littérature norroise.