Skírnir - 01.09.2000, Síða 151
SKÍRNIR
ORÐ, ORÐ, ORÐ ...
387
Arnar og Davíð nota orðið og ef við viljum halda okkur við hann
er helst að álykta svo að í orðasamböndum þeirra sé á ferðinni ein-
hver dularfullur og villugjarn uxamór.3
En ef menn eru á annað borð að vitna í grísku og nefna and-
stæðuna „mythos“ og „logos“ hefði sennilega ekki verið úr vegi
að nefna hér Prótagóras eftir Platon. Þegar Sókrates vill fá útskýr-
ingu á grundvallaratriði í kenningu Prótagórasar, spyr sá síðar-
nefndi á móti hvort hann vilji að svarið verði „mythos“ eða
„logos“.4 Viðstaddir biðja hann sjálfan ráða og telur hann að
áheyrendum muni falla „mythos“ betur í geð, en í rauninni lætur
hann þá fá hvort tveggja, hvort á eftir öðru. Þannig kemur mun-
urinn á þessari andstæðu svo skýrt í ljós að ekki verður á betra
kosið: „logos“ er fræðileg og rökrétt útskýring á grundvelli kenn-
inga Prótagórasar, en í þessu ákveðna samhengi er „mythos“ hins
vegar saga (og reyndar goðsaga í bókstaflegri merkingu þess orðs
því þar eru settar á svið goðkynjaðar verur), sem er greinilega til-
búningur Prótagórasar sjálfs en felur í sér á skáldlegan en þó mjög
skýran hátt kjarnann í hugmyndum hans. Sagan segir sem sé frá
einhverju „sem hefur ekki raunverulega gerst“, en hún hefur eigi
að síður að geyma heimspekilega hugmynd, sem einnig er hægt að
setja fram á röklegan hátt.
Næst vitnar Arnar Guðmundsson í mannfræðinginn Bron-
islaw Malinovski, sem fjallar um mýtur í „frumstæðum“ þjóðfé-
lögum.5 Skilgreining hans er af talsvert öðru tagi en sú sem Arn-
ar hafði áður vitnað í, en hins vegar virðist hún ekki ýkja frá-
brugðin þeim hugmyndum sem Platon eignar Prótagórasi í þessu
verki sínu: mýtan er sem sé frásögn sem felur í sér eitthvert djúpt
innsæi. Munurinn er einna helst sá að í þeim þjóðfélögum sem
Malinovski fjallar um hefur mýtan miklu stærra hlutverk, hún er
sprottin upp úr þjóðardjúpinu, hún er höfundarlaus og stendur
ein því það er ekki hægt að setja innihald hennar fram á sjálfstæð-
an og rökréttan hátt, eins og Prótagóras gerði við sína eigin mýtu,
3 Sbr. Þorleifur Hauksson og Þórir Óskarsson: íslensk stílfrœði, Reykjavík 1994,
bls. 157.
4 Prótagóras 320 BC.
5 Arnar Guðmundsson, ívitnuð grein, bls. 96.