Skírnir - 01.09.2000, Blaðsíða 153
SKÍRNIR
ORÐ, ORÐ, ORÐ ...
389
„saga“ eða „orðræða" (það er reyndar frummerking orðsins í
grísku), hún segir frá ákveðnum persónum og atburðum og kem-
ur á þann hátt boðskap sínum á framfæri, hver sem hann er. Þetta
getur alls ekki átt við um þær „mýtur“ sem Arnar og Davíð eru að
nefna. Hvað svo sem „mýtan um íslenska þjóðtungu“ kann að
vera, þá er hún a.m.k. ekki á nokkurn hátt frásögn með gerendum
og söguflækju. Við erum engu nær en við vorum í upphafi.
Þá er eftir þriðja skilgreiningin, sem er tilvitnun í franska bók-
menntafræðinginn Roland Barthes. Hér ætti sú mynd sem Arnar
gerir sér af mýtum og hlutverkum þeirra loksins að fara að þokast
í sjónmál, því að nú víkur hann að áhrifum „mýtunnar um Island"
og rekur hugmyndir Barthes til að skýra þau. „Hið „náttúrulega"
yfirbragð þjóðarinnar er afurð mýtunnar um ísland“, segir Arnar
og bætir svo við: „Til að skýra hvernig þetta gerist bendi ég á
greiningu Rolands Barthes á mýtum ...“.6 Höfundur rennir sér
síðan á fótskriðu yfir hugmyndir franska fræðimannsins, svo að
hvergi verður vart við nein torleiði, en fer svo hratt yfir að ekki er
víst að venjulegir lesendur hafi við honum, og því síður að þeir átti
sig á því hvernig hann kemst úr „samskiptakerfi eða ákveðinni
tegund orðræðu“ í byrjun og yfir í þær niðurstöður að „mýtur
fjarlægi pólitíkina úr orðræðunni“. Til þess að ganga úr skugga um
það hvort kenningar Barthes geti varpað einhverju raunverulegu
ljósi á þau orðasambönd sem hér eru til umræðu verður þess
vegna ekki hjá því komist að athuga betur hvernig þeim er háttað,
þótt það sé nokkuð langt mál.
Roland Barthes setti fram kenningar sínar um mýtur í
lokakafla ritsins Mythologies, sem kom út árið 1957. Meginhluti
þessa verks eru stuttar tækifærisgreinar, fimmtíu og þrjár talsins,
sem birtust í tímaritum á árunum 1954 til 1956 og fjölluðu um
ýmis málefni líðandi stundar; er eins og höfundur leitist þar eink-
um við að skýra hvað kunni að liggja að baki fréttum sem hann les
í blöðum, atburða í menningarlífinu og annars slíks, en greinarn-
ar eru þó af margvíslegu tagi og erfitt að finna beinan þráð. í
lokakaflanum, sem er dagsettur í september 1956, er hins vegar
6 Saraa stað, bls. 98-99.