Skírnir - 01.09.2000, Page 155
SKÍRNIR
ORÐ, ORÐ, ORÐ ...
391
alltaf sem nákvæmastar. í riti sínu Imagined Communities styðst
Benedict Anderson við Birtingu bókarinnar (L’apparition du
livre) eftir frönsku annálamennina Lucien Febvre og H.J. Martin
og vitnar þá í enska þýðingu verksins, en hann sér nokkrum sinn-
um ástæðu til að benda á að frumtextinn sé í einstökum atriðum
frábrugðinn.8 Og fyrir kemur að munurinn er veigamikill: þýð-
ingin er sem sé villandi. Menn geta síðan velt því fyrir sér hvort
það kunni ekki að reynast nokkuð vandrötuð leið þegar fyrst er
þýtt úr frönsku á ensku og síðan úr ensku yfir á íslensku.
Annað er þó kannske alvarlegra. I heimshornaflakkinu losna
verk þessara frönsku höfunda nefnilega burt úr sínu upphaflega
samhengi, sem sé frönsku samfélagi og menningarheimi með öll-
um sínum þrætum, togstreitu og stundlegum tískubólum, og
lenda í nýju umhverfi - í fyrsta áfanga bandarískum háskólum. En
þá er mikil hætta á að sitt hvað fari fram hjá lesendunum, þeir hafi
ekki forsendur til að vega og meta ýmislegar fullyrðingar sem vísa
til franskra séraðstæðna, þeir átti sig ekki á hvað þar býr að baki,
hvað kann t.d. að vera litað af deilum og dægurþrasi síns tíma, og
annað eftir því.
En hvað hefur Barthes nú til málanna að leggja? Eins og Arn-
ar segir réttilega lítur hann á mýtur sem „annars stigs táknkerfi“.
Öll tákn málsins eru sett saman úr tvennu, „táknmiði“, t.d. hug-
myndinni „hús“, og svo „táknmynd“, t.d. hljóðasambandinu
„h-ú-s“, og það er einmitt sameining þeirra sem skapar táknið.
Þetta var skýrt skilgreint í fyrirlestrum Saussure og er alkunnugt
úr merkingarfræðinni. En Barthes gengur nú lengra, og segir að í
mýtunni verði nú slíkt tákn að „táknmynd" í annars stigs tákn-
kerfi, fái þar nýtt „táknmið“, og úr því verði sem sé annars stigs
tákn, mýtan.9 Þessi mikla myndbreyting táknkerfa nær ekki að-
eins til texta af ýmsu tagi, frásagna o.s.frv., heldur líka til annars
konar tákna, t.d. ljósmynda (hér er endursögn Arnars villandi), og
eitt gleggsta dæmið sem Barthes tekur er einmitt blaðaljósmynd í
8 Benedict Anderson: Imagined Communities. Reflections on the Origin and
Spread of Nationalism, London 1983, sbr. bls. 25, 41 og 47-48, svo og neðan-
málsgreinar á sömu bls.
9 Bls. 187.