Skírnir - 01.09.2000, Page 157
SKÍRNIR
ORÐ, ORÐ, ORÐ ...
393
blekkingu. Afstaða táknmyndar og táknmiðs er sem sé alls ekki
með sama hætti innan þessara tveggja táknkerfa, „fyrsta stigs
táknkerfis“ og „annars stigs táknkerfis“.
Kannske má skjóta því hér inn að Barthes flækir nú málið til
muna með því að rugla saman mýtu í þeirri merkingu sem hann
gefur orðinu og „hjálparmáli“ eða „yfirmáli“ (méta-langage á
frönsku), sem sé því máli sem notað er til að tala um tungumál.
Annað dæmið sem hann tekur er nefnilega latnesk setning, komin
úr fornri dæmisögu, sem er síðan notuð til að skýra málfræðireglu
og verður þannig hluti af „annars stigs táknmáli“ að hans dómi.
Þar eru tengslin augljós og nákvæmlega skilgreind, því að setning-
in hefur ákveðna merkingu í venjulegu máli og felur jafnframt í sér
ákveðna málfræðireglu sem gerir hana að nothæfu dæmi í „hjálp-
armáli“. En í því samhengi skiptir frummerkingin alls engu máli,
setningin gæti vitanlega snúist um hvað sem er, svo framarlega sem
málfræðireglan er þar til staðar. Þetta er því allt annað fyrirbæri,
og þegar Barthes heldur því fram að mýtan sé „yfirmál“ er það
hugtakabrengl miðað við skilgreiningar hans sjálfs. En slíkur
trúðsleikur með orðin er ekki óalgengur í ritum franskra hugsuða
af þessari kynslóð, og eitt af því sem gerir orðræður þeirra stund-
um að holtaþoku án kennileita.
Hvernig kemst þá Roland Barthes frá táknmyndinni í þessu
annars stigs táknmáli (t.d. myndinni af svertingjanum) og yfir í
táknmiðið (t.d. mýtunni um franska heimsveldið)? Þetta er týndi
liðurinn í endursögn Arnars, sem rekur aðeins niðurstöðuna, að
„mýtur fjarlægi pólitíkina úr orðræðunni“, en ef menn vilja fá ein-
hvern botn í kenningar Barthes verður ekki hjá því komist að líta
einnig á þá hlið.
En hætt er við að hún komi mönnum nokkuð undarlega fyrir
sjónir nú á dögum. Hugmynd Rolands Barthes um franskt þjóð-
félag er sú að þar ráði einhverjir „borgarar“ lögum og lofum og
hafi gert allar götur síðan 1789.11 Að vísu mæti þeir ákveðinni
andstöðu sem komi frá „byltingarflokknum" („le parti ré-
volutionnaire“) en sú andstaða sé einvörðungu á sviði stjórnmála,
11 Bls. 211 og áfram.