Skírnir - 01.09.2000, Síða 163
SKÍRNIR
ORÐ, ORÐ, ORÐ ...
399
ur að „snúa aftur“. Arnar vitnar í orð Matthíasar Jóhannessens:
„Ef á Njálu er minnzt, vita allir, við hvað er átt og „fögur er hlíð-
in“ merkir aðeins eitt: þá dýpstu og sönnustu ættjarðarást, sem til
er.“ Síðan dregur hann sína ályktun: „Sagan af einstaklingnum
Gunnari (fyrsta stigs táknkerfi) er orðin að verkfæri annars stigs
merkingar.“24 Er nú hægt að nota þetta dæmi til stuðnings orðum
Arnars um „upprunasögu", og er það í samræmi við kenningarn-
ar yfirleitt?
Lesanda, sem veit meira um kenningar Barthes en það sem
Arnar endursegir, verður kannske hugsað til málverks Ásgríms
Jónssonar af þessum atburði Njáls sögu, um leið og ljósmyndin í
Paris-Match rifjast upp fyrir honum. En hér er ekki hægt að láta
staðar numið við einhverja yfirborðslíkingu, í hverju svo sem hún
kann að vera fólgin. Hvaða „sögu“ er verið að dulbúa sem „nátt-
úru“ í frásögninni um Gunnar Hámundarson? Hvaða merking fer
forgörðum þegar „fyrsta stigs tákn“ verður að „annars stigs tákni“?
Hvert er svo það „nýja táknmið" sem frásögnin fær í þessu „ann-
ars stigs tákni“? Þessar spurningar leiða í ljós það sem er kjarni
málsins. A því sem Arnar kallar „fyrsta stigs tákn“ í frásögninni
um Gunnar og því sem hann kallar „annars stigs tákn“ er nefni-
lega ekki nokkur minnsti merkingarmunur, það fer alls engin
merking forgörðum, persóna Gunnars sjálfs, ævisaga hans, hverf-
ur ekki í „annars stigs tákni“, síður en svo, og frásögnin er ekki
tengd við neitt nýtt táknmið. Ljósmyndin í Paris-Match var af
nafnlausum svertingja, hvaða svertingi sem var gat leikið sama
hlutverk, því að persónan sjálf var horfin, það eina sem skipti máli
var athöfnin sem myndin sýndi. Málverk Ásgríms Jónssonar er af
Gunnari á Hlíðarenda og Kolskeggi og engum öðrum og það sýn-
ir eitt ákveðið atvik úr persónulegri sögu þeirra tveggja, eitt
augnablik sem skiptir sköpum. Ef orðin „fögur er hlíðin" eru lát-
in merkja „þá dýpstu og sönnustu ættjarðarást, sem til er“, vísar
það til tilfinningar sem gera má ráð fyrir að hafi verið, í einni eða
annarri mynd, í sögunni upphaflega, það er ekki verið að breyta
merkingu orðanna heldur alhæfa þau, og því fylgir enginn dul-
24 Sama stað, neðanmálsgrein.