Skírnir - 01.09.2000, Page 164
400
EINAR MÁR JÓNSSON
SKÍRNIR
búningur, engin myndbreyting og síst af öllu myndbreyting ein-
hverrar „sögu“ í „náttúru“. Þegar svona er í pottinn búið, hlýtur
maður að velta því fyrir sér hvort það sé til nokkurs annars en
trafala að vera að rogast með einhvern þunglamalegan greinarmun
á „fyrsta stigs táknkerfi" og „annars stigs táknkerfi“. Væri ekki
nær að varpa kenningum Barthes fyrir róða og reyna að skoða
sögu Gunnars úr annarri átt?
Svo virðist nefnilega sem Arnar sé dottinn í þá gildru að rugla
saman „mýtu“, eða „annars stigs táknkerfi" samkvæmt skilgrein-
ingum Barthes, og því sem er ekki annað en söguskoðun og
sögutúlkun, eða jafnvel lærdómur dreginn af sögu. Slíkur rugling-
ur kemur enn skýrar fram í orðum hans um að það sé „erfitt að sjá
fyrir sér hina einu réttu sögu sem segði allan sannleikann um eitt-
hvað og væri alls ekki notuð til að draga af henni „annars stigs“
lærdóma".25 Það er meira en erfitt, því ekki er til nein saga, og get-
ur ekki verið til, sem byggir ekki á einhverri ákveðinni söguskoð-
un og felur ekki í sér einhverja ákveðna túlkun þess sem verið er
að segja frá. En slík viðhorf eru hluti af sögunni sjálfri, grund-
völlur hennar, og alls ekki nein myndbreyting. Ef menn vilja
kenna þau við eitthvert „annað stig“ eru þeir komnir góðan spöl
frá skilgreiningum Barthes. Og það væri ekki síður út í hött að
kalla þau „mýtu“, því þá væri nánast allt „mýta“, og hugtak sem
þannig væri teygt og togað yrði merkingarlaust.
En þó að hægt væri að benda á eitthvert ákveðið, íslenskt dæmi
um að t.d. „upprunasögu“ hafi verið breytt á þennan veg, er það
samt ekki nóg. Til þess að myndbreytt saga geti kallast „mýta“
þarf hún að vera á einhvern hátt almenn og viðurkennd - því að
kenningin gerir ekki ráð fyrir neinum „einstaklingsmýtum“, þótt
það hugtak sé til í allt öðru samhengi - það þarf í rauninni að vera
fyrir hendi eitthvert þjóðfélagsafl sem hefur hag af mýtunni og
getur nánast „þvingað“ henni upp á almenning, með blekkingu
eða öðru. Samkvæmt kenningum Barthes er þetta þjóðfélagsafl
„borgararnir“ og mýturnar hluti af laumuspili þeirra til að við-
halda valdi yfir almenningi. Hvaða afl gæti leikið hlutverk þeirra á
25 Sama stað.